Enn ein könnunin í Bandaríkjunum staðfestir, að stóru fjölmiðlarnir og almenningur ganga gjörsamlega í ótakt og hafa gjörólíka sýn á raunveruleikanum. Könnunin var gerð vegna uppljóstrana um svindl, þar sem fjölmiðlarnir fjölluðu um tilbúin meint tengsl fyrrverandi forseta Donald Trump við Rússland.
Flestir Bandaríkjamenn telja að „Russiagate“ rannsóknin á Donald Trump hafi byggst á lygum og að fjölskylda Joe Biden Bandaríkjaforseta hafi gerst sek um glæpi til að komast til áhrifa. Þetta er niðurstaða nýrrar könnunar Harvard CAPS/Harris.
70% Bandaríkjamanna hafa áhyggjur af afskiptum FBI af forsetakosningum
56% bandarískra kjósenda telja, að fullyrðingin um að Trump hafi átt í samráði við Rússa til að vinna forsetakosningarnar 2016, sé lygi. Sama hlutfall telur að „upplýsingarnar“ sem lágu til grundvallar rannsókn FBI á kosningabaráttu Trumps hafi verið rangar.
Tæplega sjö af hverjum 10 svarendum sögðust ekki vera hissa á Durham-skýrslunni, sem gefin var út fyrr í þessum mánuði, þar sem kom í ljós að FBI braut eigin reglur og lög, þegar rannsókn var hafin um tengsl Trumps og Rússlands, sem varð áróðurstæki í kosningabaráttu Hillary Clinton, frambjóðanda demókrata.
Sömuleiðis höfðu 70% aðspurðra áhyggjur af afskiptum FBI og leyniþjónustustofnana af forsetakosningunum í Bandaríkjunum og 71% telja að alríkisstjórnin þurfi „alhliða endurbætur“ til að koma í veg fyrir slík afskipti í framtíðinni.
CNN og aðrir helstu bandarískir fjölmiðlar héldu uppi ásökunum um samráð Trumps og Rússlands í þrjú ár. Hins vegar var gert lítið úr Durham-skýrslunni þegar hún kom út í síðustu viku.
Rannsaka ekki Biden fjölskylduna
Rétt áður en kjósendur gengu að kjörborðinu árið 2020 dreifðu fjölmiðlar fullyrðingum fyrrverandi bandarískra leyniþjónustumanna um að skýrsla um meint áhrif Biden fjölskyldunnar – tekin af fartölvu sem sonur Biden, Hunter Biden, skildi eftir í bílskúr – væri „rússneskur áróður.“
53% telja að Joe Biden hafi tekið þátt í ólöglegum viðskiptum sonar síns, Hunter Biden og skattsvikum. 55% telja einnig að FBI og bandaríska dómsmálaráðuneytið ætli sér ekki að rannsaka meinta spillingu Biden fjölskyldunnar sem skyldi.
Óháði blaðamaðurinn Glenn Greenwald segir, að könnunin sýni hvernig „frjálslyndir fjölmiðlar“ skorti gjörsamlega tengingu við skoðanir Bandaríkjamanna. Hann bætir við að stórir fjölmiðlar ýti ekki bara undir mál sem Bandaríkjamenn trúa ekki á, heldur leyfa fjölmiðlarnir ekki sjónarmiðum Bandaríkjamanna að heyrast.
Hér að neðan má sjá könnunina sem er umfangsmikil og fjallar einnig um miklu fleiri önnur mál en þessi grein segir frá: