Magnús Þór Hafsteinsson skrifar:
Konur eru sigurvegarar forsetakosninganna. Þær sem skipa þrjú efstu sætin fengu samanlagt 75 prósent atkvæða. Sú efsta vann sannfærandi og afgerandi sigur. Þetta er rothögg á furðuumræðu í aðdraganda kjördags, meðan annars úr ranni ónefnds prófessors við Háskóla Íslands, um að andstaðan við Katrínu Jakobsdóttur ætti rætur að rekja til „kvenhaturs“. Kyn skiptir ekki máli í íslenskum stjórnmálum og það er vel.
Katrínu var hafnað vegna þess að hún vegna verka sinnar vekur megna óbeit meðal yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar. Flóknara er það ekki. Það sem hér gerðist var einstakt í íslenskum forsetakosningum til þessa. Þetta voru ekki samantekin ráð, þetta var ekki skipulagt. Einstaklingar tóku það upp hjá sjálfum sér að kjósa markvisst gegn Katrínu Jakobsdóttur. Þeir greiddu atkvæði þeim frambjóðanda sem skoðanakannanir sýndu að væri líklegastur til að koma í veg fyrir að þar til rétt nýverið forsætisráðherra lýðveldisins og formaður eins stjórnarflokkanna gæti orðið forseti Íslands. Kosningabarátta Katrínar kostaði sjálfsagt fleiri hundruð milljónir króna og nú ættu fjölmiðlar sem stríða við trúverðugleikavanda að ganga í að upplýsa hverjir borgi þá reikninga (en sennilega er borin von um að það verði gert).
Sjálfskipuð valdastétt landsins auk helstu fjölmiðla þess, sem að stórum hluta studdu Katrínu, hafa orðið fyrir áfalli sem þessir aðilar verða lengi að jafna sig eftir. Trúverðugleiki margra (best að nefna engin nöfn – þeir taka til sín sem eiga) er rokinn út í veður og vind. Ríkisstjórnin er stórlega veikluð því þessar niðurstöður forsetakosninganna gefa tóninn um það sem verður í næstu þingkosningum sem fara fram ekki seinna en að 16 mánuðum liðnum.
Einn stjórnarflokkanna, Vinstri hreyfingin – Grænt framboð, er eins og sundurskotið orrustuskip sem marar í hálfu kafi og að sökkva. Skipherrann og aðmírállinn er stokkinn frá borði og fallinn, eftirlifandi áhöfnin stendur ráðþrota eftir um borð og horfist í augu við þá staðreynd að þeirra bíður ekkert annað en alger tortíming því kjósendur munu ekki láta hér við sitja. Þeir hafa fundið mátt sinn, skynja hversu þeir eru megnugir. Það blánar í eggina og stund lokauppgjörs nálgast.
Karlarnir þrír sem fylgja fylgislega í kjölfar kvennana þriggja fengu 23,6 prósent. Arnar Þór Jónsson sem kannski var pólitískasti frambjóðandinn af öllum og fyrstur til að bjóða sig fram til forseta fékk aðeins 5,1 prósent og rekur lestina (til samanburðar má kannski nefna að Guðmundur Franklín Jónsson fékk 7,8 prósent gegn Guðna 2020). Þetta hljóta að vera afar sár vonbrigði fyrir Arnar Þór og mikið áfall fyrir málstað hans og þau gildi sem hann hélt á lofti.
En heilt yfir er ég afar sáttur við helstu niðurstöður þessarra kosninga. Halla Tómasdóttir verðandi forseti hefur alla burði til að geta orðið embætti sínu vaxin (ég kaus hana 2016). Halla Hrund (sem ég kaus nú) galt sennilega helst fyrir ungan aldur og reynsluleysi (nafna hennar naut þess augljóslega að hafa tekið þátt í kosningabaráttu áður). En Halla Hrund er óslípaður demantur og gæti vel orðið forsetaefni framtíðar ef mál skipast með þeim hætti að nýkjörinn forseti hætti vonum fyrr eins og Guðni hefur nú gert.
Ég óska Höllu Tómasdóttur innilega til hamingju með sigurinn.