Kúvending Framsóknar í flugvallarmálinu hræsni og óheilindi

Sú kúvending sem orðið hefur á afstöðu Framsóknarflokksins í borginni í Flugvallarmálinu sem buðu sig fram á sínum tíma undir heitinu flugvallarvinir sýnir hræsni og óheilindi. Þetta segir Ólafur F. Magnússon tónlistarmaður,læknir og fyrrverandi borgarstjóri í síðdegisútvarpinu í dag en hann var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur.

Ólafur segir að hann hafi hitt fólk sem hafi kosið Framsóknarflokkinn í síðustu borgarstjórnarkosninum sem upplifi breytta afstöðu í málinu sem mikil svik við kjósendur. Ólafur segir að hann hafi meðal annars hitt einn kjósanda sem hafði rætt við Einar Þorsteinsson oddvita Framsóknar í borginni sem hafi fullvissað hann um að kjósa sig og hann þyrfti ekki að hafa áhyggjur af flugvellinum.

„Þessi maður var öskureiður yfir því að hafa látið gabba sig og Einar er mjög óheill í sínum málflutningi, hann er loðinn, enda tækifærissinni og er í stjórnmálunum fyrir völd en ekki hugsjónr og er því fullkominn andstæða við mig í stjórnmálum“segir Ólafur.

Ólafur sem er mikill umhverfissinni segir að þegar farið verði í framkvæmdir við hinn nýja Skerjafjörð verði mikið umhverfisslys því þarna eigi bæði að flytja olíumengaðan jarðveg með tilheyrandi mengunarhættu sem og fylla upp í fjöru sem sé íbúum afar kær og mikilvæg.

Í Morgunblaðinu í dag birtist grein eftir Ólaf vegna málsins en greinin hefst á ljóði úr smiðju Ólafs sem varð til þegar Ólafur fréttir af því að Framsókn ætlaði að ganga til liðs við vinstri meirihlutann í borginni. En ljóðið er svohljóðandi:

Hallar sér á vinstri væng
vænust Framsókn núna
með Samfylkingu undir sæng
sárt er að missa trúna,
að Sundabraut rísi senn
og samgöngurnar batni,
að líf við okkur leiki enn
og loforðin haldi vatni.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila