Kynna Norræna menningu í Kanada

Frá fundinum.

Ráðherrar menningarmála á Norðurlöndum, og fulltrúar þeirra, funduðu í vikunni og tóku ákvörðun um sameiginlega menningarkynningu landanna sem fara mun fram í Kanada árið 2021. Að þessu sinni var valið að halda fjarfund sem stýrt var frá Reykjavík en fulltrúar landanna sjö lýstu yfir mikilli ánægju með það framtak.  „Það er okkur mikil ánægja að kynna Kanada til leiks sem næsta gestgjafa norrænnar menningarkynningar árið 2021. Fyrri kynningar, sem meðal annars hafa verið haldnar í London og Washington, hafa reynst kærkomin tækifæri til þess að auka skapandi samstarf landanna og beint kastljósi heimsins að norrænni menningu í víðum skilningi. Dagskráin í borgum Kanada verður metnaðarfull, fjölbreytt og fræðandi – ég hvet alla til þess að fylgjast vel með þessu verkefni. Það eru spennandi tímar framundan,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra. Auk þess að velja Kanada sem gestgjafa fyrir næstu sameiginlegu menningarkynningu ákváðu menningarmálaráðherrarnir að veita styrk til metnaðarfullrar menningardagskrár í Brussel með það fyrir augum að styrkja og auka hlut norrænnar menningar og lista í Evrópu á vettvangi BOZAR, stærstu menningar- og listamiðstöðvar Belgíu, á tímabilinu 2019-2020.

Athugasemdir

athugasemdir

Deila