
Frumvarpsdrög sem unnið er að í heilbrigðisráðuneytinu gera ráð fyrir því að heilbrigðisstofnunum verð heimilt að ráða til sín heilbrigðisstarfsmenn sem orðnir eru sjötugir allt til 75 ára aldurs. Núgildandi lög krefjast þess að vinnuveitendur starfsmanna ríkisins, sem eru m.a. opinberar heilbrigðisstofnanir, segi upp starfsfólki, þ.m.t. heilbrigðisstarfsfólki, þegar það verður 70 ára. Uppsagnirnar eru óháðar starfsgetu.
Drögin verða því að nokkurs konar undanþágu sem veitt verður yfirmönnum á heilbrigðisstofnunum til þess að ráða á sínar stofnanir fólk sem alla jafnan væri komið á eftirlaun.
Markmiðið með breytingunni er að mæta mönnunarvanda í opinberri heilbrigðisþjónustu þar sem ljóst er að stór hluti heilbrigðisstarfsfólks mun ná 70 ára aldri á næstunni, sérstaklega innan stærstu stéttanna sem eru hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar. Í þeim stéttum er þegar er mikill skortur á fagfólki. Áfram yrði skylt að segja upp heilbrigðisstarfsmönnum ríkisins við 70 ára aldur, en heimilt yrði að ráða þá aftur með nýjum ráðningarsamningi, allt til 75 ára aldurs, en þá yrði skylt að segja þeim upp endanlega.
Flestar umsagnir sem sendar hafa verið inn vegna frumvarpsins eru á einn veg. Þar er frumvarpinu fagnað og breytingarnar sagðar jákvætt skref í því að leyfa fólki sem telur sig hafa heilsu til, til þess að vinna áfram ef það kýs svo. Þó bendir BHM á að samkvæmt núgildandi lögum beri atvinnurekendum aðeins skylda til að greiða í lífeyrissjóð fyrir starfsfólk til sjötugs og samkvæmt núverandi samþykktum LSR taki sjóðurinn ekki við greiðslum frá félagsfólki eftir þann aldur. BHM telji því að þessi atriði þurfi að skoða og ræða í þaula áður en lögin koma til framkvæmda, með þar til bærum aðilum svo sem verkalýðshreyfingunni og LSR, enda grundvallaratriði að það sé raunverulega starfsmanni til hagsbóta að vinna lengur hvað lífeyri varðar