Leiðtogafundur Evrópuráðsins haldinn á Íslandi

Fjórði leiðtogafundur í sögu Evrópuráðsins verður haldinn á Íslandi 16.-17.maí 2023. Forsætisráðherra Íslands og utanríkisráðherra Írlands tilkynntu í morgun formlega ákvörðun Evrópuráðsins um að efna til leiðtogafundar undir formennsku Íslands í ráðinu. Forsætisráðherra og utanríkisráðherra Íslands verða gestgjafar fundarins.

Aðildarríki Evrópuráðsins sammæltust um að ríkt tilefni væri til að leiðtogar ríkjanna 46 kæmu saman á þeim viðsjárverðu tímum sem nú væru uppi. Samhljóða ákvörðun þess efnis var tekin á fundi ráðherranefndar Evrópuráðsins í dag.

„Evrópuráðið snýst um grunngildi samfélaga okkar; lýðræði, mannréttindi og réttarríkið. Innrásin í Úkraínu, heimsfaraldur og efnahagsþrengingar skapa áskoranir fyrir þessi grunngildi og því hefur aldrei verið mikilvægara að leiðtogar Evrópuþjóða endurnýi heitin og séu samtaka um að standa vörð um þessi gildi. Ísland mun taka formennskuhlutverk sitt alvarlega enda tökumst við á við þetta verkefni á krefjandi tímum,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

Aðeins þrír leiðtogafundir Evrópuráðsins hafa verið haldnir í tæplega 75 ára sögu ráðsins. Fundurinn verður sá umfangsmesti sinnar tegundar sem Ísland hefur nokkurn tímann haldið.

„Ísland svarar að sjálfsögðu því kalli Evrópuríkja um að leiðtogarnir komi saman,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra. „Ljóst er að sú staða sem upp er komin í álfunni í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu verður í brennidepli á leiðtogafundinum. Aðstæður til að halda slíkan fund gætu því varla verið meira knýjandi og augu umheimsins munu án efa beinast að Íslandi þessa daga á vori komanda.“

Ísland tekur við formennsku í Evrópuráðinu af Írum miðvikudaginn 9. nóvember. Í formennskunni verður lögð áhersla á grundvallargildi Evrópuráðsins – mannréttindi, lýðræði og réttarríkið. Þar að auki endurspeglast áherslur íslensku ríkisstjórnarinnar á jafnrétti, málefni barna og umhverfismál í formennskuáætlun Íslands. Fjöldi viðburða verður haldinn í tengslum við formennskuna næstu sex mánuði bæði í Strassborg og á Íslandi þar sem lögð verður áhersla á að kynna íslenskar lausnir við sameiginlegum áskorunum. 

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila