Skrifað af samtökunum Heimssýn hreyfingu sjálfstæðissinna í Evrópumálum:
Það eru allnokkrar breytistærðir sem hirða þarf um þegar verð á íbúðalánum er borin saman milli landa. Sumir gera það með frjálslegum aðferðum, svo ekki verður hjá því komist að líta á málið hér á þessum vettvangi.
Raunvextir eru mælikvarði á leiguverð fjármagns. Raunvextir eru vextir umfram verðbólgu.
Á Íslandi má segja að raunvextir séu vextir á verðtryggðum lánum. Þeir eru samkvæmt vefsíðunni herborg.is frá 2,37% upp í 4,49% á Íslandi. Sex lánveitendur bjóða lán með 3-4% breytilegum vöxtum.
Íbúðalán í Danmörku virðast flest vera óverðtryggð. Íbúðalán í Danmörku er þéttur frumskógur verðs og skilyrða. Flestir lánveitendur hvetja viðskiptavini til að bóka tíma og koma í heimsókn. Í svoleiðis heimsóknum er ekki venjan að bjóða viðskiptavinum allt sem þeir vilja fyrir allra lægsta verð í töflu, en lítum samt á þær. Vaxtatafla Nordea (https://www.nordea.dk/Images/144-506880/Prisskilt%2027.06.2024%20Nordea.dk%20-%20BoligPuls.pdf) segir að íbúðalán kosti á bilinu 4,1-9,1%, en upplýsingasíðan https://www.raadtilpenge.dk/Gode-raad/boliglaan/tjekboliglaan/Criteriapage segir að margir bjóði lán á 5-5,2%. Er þá miðað við allt að 80% veðhlutfall og breytilega vexti. Verðbólga í Danmörku var síðast þegar fréttist 2,2% (1,6% ef miðað er við svokallaða kjarnavísitölu). Raunvextir á íbúðalánum í Danmörku eru með öðrum orðum 1,9-6,9% í Nordea og 2,8-3% samkvæmt raadtilpenge.dk. Sé miðað við kjarnavísitöluna eru raunvextirnir 2,5-7,5% og 3,4-3,6% á þessum tveimur stöðum í Danmörku.
Þessi stutta skoðun bendir til þess að verð á lánsfé til íbúðakaupa sé á svipuðu róli í Danmörku og á Íslandi þegar þetta er skrifað, í júní 2024.
Það vekur reyndar athygli að verðmunur milli lánveitenda í sama landi er töluverður, bæði í Danmörku og á Íslandi.
Það skyldi þó ekki vera að aðrir þættir en aðild að Evrópusambandinu ráði verði lánsfjár?