Loftslagsmálin verða ekki leyst á litla Íslandi

Það eru þau stóru ríki eins og Bandaríkin og Kína sem munu verða þau lönd sem grípa þurfi til aðgerða í loftslagsmálum að lokum enda mengi þau mest. Því liggur það í hlutarins eðli að loftslagsmálin verða ekki leyst á Íslandi. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Eyjólfs Ármannssonar þingmanns Flokks fólksins í síðdegisútvarpinu í gær en hann var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur.

Eyjólfur segir að það sem ísland geti lagt af mörkum er að standa við sinn hluta skuldbindinga sem gerðar hafa verið. Það sé til dæmis hægt með því að klára orkuskipti hér á landi en til þess þurfi Ísland að hafa stjórn á sínum orkumálum.

„Við hér á litla Íslandi eigum að sjálfsögðu að gera okkar besta og standa við okkar alþjóðlegu skuldbindingar og fara í alvöru rafvæðingu bílaflotans að því marki sem hægt er að skipta olíu út fyrir rafmagn en það er alveg ljóst að til þess að geta farið í orkuskipti af alvöru þá sé mikilvægt að Ísland hafi sjálft stjórn á sínum orkumálum“segir Eyjólfur.

Hann segir að Íslendingar geti ekki haft áhyggjur af öðrum löndum í þessum efnum ,hann segir Ísland geta veitt liðsinni eftir bestu getu eins og með þrýstingi á lönd eins og Kína en að loftslagsmálin verði fyrst og fremst leyst úti í heimi en ekki á Íslandi.

Arnþrúður bendir á að Ísland sé afar lítið og sogist hreinlega með hinum löndunum inn í þessa loftslagsbaráttu og þurfi að greiða í þá sjóði sem því fylgja og nú síðast nokkurs konar bótasjóð loftslagsmála sem samþykktur var á loftslagsráðstefnunni í Egyptalandi, reynt sé þannig í sífellu að seilast í skattfé landsmanna án þess að þeir fái rönd við reist.

Eyjólfur segir að það verði fróðlegt að sjá hver reikningurinn fyrir þessum nýjasta sjóði verði.

„sá reikningur hlýtur að koma og þá sjáum við hverju margar milljónir eða milljarða við þurfum að borga en þá .urfum við líka að hafa með því eftirlit hvernig því fé er svo varið“segir Eyjólfur.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila