Löggæsla efld til muna – Stórátak í baráttunni við skipulagða glæpastarfsemi

Dómsmálaráðuneytið, ríkislögreglustjóri og lögreglustjórar landsins, ásamt ríkissaksóknara og héraðssaksóknara hafa unnið saman að áætlun um stóreflingu í almennri löggæslu, bættan málshraða kynferðisbrota, aðgerðir gegn skipulagðri brotastarfsemi og eflingu lögreglunáms hér á landi. Þetta var meðal þess sem fram kom á upplýsinga og blaðamannafundi Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra sem fram fór fyrir stundu.

Á fundinum tóku einnig til máls Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari, Halla Bergþóra Björnsdóttir lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu og Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri.

Á fundinum kom fram að til standi að fjölga stöðugildum innan löggæslunnar um 80 stöðugildi.

Þessi stöðugildi skiptast þannig:

  • Um 30 lögreglumenn um allt land
  • Um 10 sérfræðingar í margvísleg lögreglustörf, þar á meðal almannavarnir og samfélagslöggæslu
  • Um 10 landamæraverðir
  • Um 20 stöðugildi til að takast á við skipulagða brotastarfsemi
  • Um 10 stöðugildi við rannsókn og saksókn kynferðisbrota, en þessum stöðugildum var bætt við fyrir áramót.
Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari

Fram kom í máli ráðherra að þróun löggæslumála hafi ekki verið í takt við almenna þróun í íslensku samfélagi. Landsmönnum hafi fjölgað og ferðamenn eru margfalt fleiri en áður. Þessu hafa fylgt fjölbreytt verkefni lögreglu og aukið álag um allt land. Fjöldi lögreglumanna hafi ekki haldið í við þessa þróun. Hlutfall ófaglærðra lögreglumanna hafi farið vaxandi, einkum á landsbyggðinni og viðbragðstími lögreglu víða á landsbyggð sé ekki ásættanlegur. Á sama tíma hefur orðið vart við aukinn vopnaburð og alvarlegri afbrot en áður og lögreglumenn lenda oftar í hættulegum aðstæðum. Þá sé skipulögð brotastarfsemi að aukast hér á landi og slík starfsemi virðir hvorki umdæmamörk né landamæri. Til þess að takast á við það verða rannsóknir á slíkum brotum færð undir sérstakt teymi sem Héraðssaksóknari leiðir. Þá benti ráðherra á að undanfarin ár hafi ítrekað borist varnaðarorð frá lögregluyfirvöldum vegna þessarar þróunar.

Á fundinum kom fram að aðgerðarplanið sem unnið hafi verið að undanfarna 12 mánuði verði fjórþætt.

  • Umfangsmikla eflingu almennrar löggæslu
  • Efling menntunar lögreglumanna
  • Nýja aðgerðaráætlun gegn kynferðisbrotum
  • Stóreflingu aðgerða gegn skipulagðri brotastarfsemi.
Frá fundinum í dag

Gert er ráð fyrir að fjölgað verði jafnt og þétt í lögregluliðinu, meðal annars með því að útskrifa fleiri lögreglunema eða um 80 til 100 manns á ári í stað 40 áður. Strax á síðasta ári var hafist handa við að efla lögreglunámið því þessar breytingar munu kalla á fleiri menntaða lögreglumenn.

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra

Fjölgað verður um allt að 20 manns til þess að styrkja rannsóknar- og greiningargetu lögreglunnar varðandi skipulagða brotastarfsemi. Þetta mun margfalda getu lögreglunnar til að takast á við nýjar áskoranir. Mynduð verða rannsóknarteymi sem starfa þvert á embætti og mun héraðssaksóknari taka við formennsku í stýrihópi fyrir rannsóknarteymin. Stýrihópurinn verður sá hópur sem greinir og forgangsraðar verkefnum í skipulagðri brotastarfsemi. Þátttaka í evrópsku löggæslusamstarfi verður aukin, meðal annars með nýjum íslenskum fulltrúa hjá EuroJust og áframhaldandi fulltrúa hjá EuroPol.

Þá hefur dómsmálaráðherra samþykkt nýja aðgerðaráætlun gegn kynferðisbrotum sem mun gilda næstu þrjú árin. Á síðasta ári var um 10 stöðugildum bætt við í rannsóknir og saksókn kynferðisbrota og hefur tekist að vinna töluvert niður uppsafnaðan málafjölda hjá lögreglunni með fjölgun starfsfólks og breyttum vinnubrögðum.

„Þetta er upphafið að þörfu grettistaki í löggæslumálum á Íslandi. En til að sporna við þessari óheillavænlegu samfélagsþróun þarf samspil fleiri þátta. Við þurfum samstillt átak samfélagsins alls, fjölskyldunnar, skólakerfisins og annarra stofnana samfélagsins. Og að því þarf að vinna með viðeigandi stofnunum. Framundan eru krefjandi verkefni og ég treysti ríkislögreglustjóra, héraðssaksóknara, – okkar öflugu lögreglustjórum og lögreglumönnum – til að takast á við þetta sem ein heild.“ sagði Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra.

Smelltu hér til þess að horfa á fundinn

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila