Fulltrúi Fjármálaráðuneytisins og ríkisendurskoðandi banna birtingu skýrslu Lindarhvols

Lögmaður sem sá um að selja eignir Lindarhvols fyrir hönd ríkisins er bæði verjandi ríkisins og vitni í máli sem fyrirtækið Fríkus 2 hefur höfðað gegn íslenska ríkinu. Fyrirtækið Fríkus 2 telur sig hafa orðið fyrir tjóni vegna þess að eign sem fyrirtæki hafði boðið í hafi verið selt lægra verði til þriðja aðila en tilboð þeirra hljóðaði upp á. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Þorsteins Sæmundssonar fyrrverandi þingmanns Miðflokksins í síðdegisútvarpinu í dag en hann var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur.

Þorsteinn segir að þau rök sem fyrirtækinu voru gefin upp fyrir því að það fengi ekki að kaupa hafi verið að tilboðið hefði borist of seint. Fyrirtækið krefst 650 milljóna í bætur vegna missts hagnaðar en eignin hafi verið seld sem fyrr segir þriðja aðila fyrir um 503 milljónir króna en hafi verið líklega milljarðs virði.

„það er nú svo einkennilegt að sá lögfræðingur sem vélaði hvað mest um Lindarhvol er verjandi ríkisins í þessu máli sem verður til meðferðar í Héraðsdómi í næstu viku og ekki nóg með það að þá er hann einnig vitni líka“segir Þorsteinn.

Hann segir að fróðlegt verði að fylgjast með málinu fyrir rétti því þar verður kallaður til sem vitni Sigurður Þórðarson fyrrverandi ríkisendurskoðandi sem skrifaði skýrslu um Lindarhvol hér um árið sem ekki hefur fengist birt þrátt fyrir að forsætisnefnd Alþingis hafi í apríl í fyrra samþykkt að birta hana. Síðan þá hefur ekkert heyrst af skýrslunni og segir Þorsteinn að síðast í gær hafi Birgir Ármansson gefið þær skýringar að tveir aðilar settu sig upp á móti birtingu hennar, það eru núverandi ríkisendurskoðandi, Guðmundur Björgvin Helgason og Ester Finnbogadóttir stjórnarmaður í Lindarhvoli og starfsmaður í Fjármálaráðuneytinu.

Þorsteinn segir afar óeðlilegt að þarna séu aðilar að taka fram fyrir hendurnar á Alþingi og forseta Alþingis.

„það verður mjög fróðlegt að fylgjast með þessu þinghaldi í Héraðsdómi í næstu viku því þar mun Sigurður Þórðarson bera vitni og eftir þá vitnaleiðslu verður það í sjálfu sér einboðið að birta skýrsluna. Hann hlýtur að vitna til hennar í réttinum og verja hendur sínar því Skúli Eggert Þórðarson sem svo ritaði nýja skýrslu í stað þess að birta skýrslu Sigurðar, hefur látið hafa eftir sér að Sigurður hafi dregið rangar ályktanir, ekki haft öll gögn og ef skýrla Sigurðar yrði birt myndi það baka ríkissjóði skaðabótaábyrgð“segir Þorsteinn

Viðtalið verður aðgengilegt hér í fréttinni innan skamms

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila