Site icon Útvarp Saga

Lögreglan staðfestir að tómstundaheimili í Botkyrka voru notuð af glæpamönnum

Í skýrslu á síðasta ári var komist að þeirri niðurstöðu að um glæpsamlegt athæfi og bótasvik væri að ræða á frístundaheimilum Fræðslusambands verkalýðsfélaganna (ABF) í Botkyrka í Suður-Stokkhólmi. Formaður ABF neitaði því, að nokkur fótur væri fyrir því sem sagt var í skýrslunni og sagði hana byggða á „lausum fullyrðingum.“ Heimildir lögreglunnar staðfesta hins vegar, að ABF hafi verið athvarf glæpamanna og að ástandið hafi verið enn verra en kom fram í skýrslunni.

Í byrjun síðasta árs sleit sveitarfélagið Botkyrka, undir forystu jafnaðarmannsins Ebbu Östlin, skyndilega samstarfi við ABF Botkyrka-Salem sem sá um frístundastörf í sveitarfélaginu. Samstarfið hafði staðið í 40 ár og var ákvörðuninni lýst sem áfalli fyrir bæði starfsfólk og börn sem dvöldu á frístundabýlinu, að sögn blaðsins Mitt i. Áður en sveitarfélagið ákvað að slíta samstarfinu réðu þau öryggisfyrirtæki til gera úttekt á rekstrinum, vegna þess að þau vildu fá svör við því, hvernig styrkir sveitafélagsins voru nýttir og hvort vinnuumhverfi og rekstur væri öruggt.

Fullorðnir í skotheldum vestum á stöðunum

Í skýrslunni var komist að þeirri niðurstöðu, að hjá ABF hafi meðal annars starfað fólk með afbrotabakgrunn, að fíkniefni fundust á frístundaheimilinum og að fullorðnir sem ekki voru starfsmenn á staðnum voru íklæddir skotheldum vestum. Þá hafa peningar skattgreiðenda meðal annars runnið til expressóvéla og air-pods fyrir starfsfólkið auk heimsókna á ýmis veitingahúsa. Christina Zedell, stjórnmálamaður og stjórnarformaður ABF Botkyrka-Salem, sagði á sínum tíma að „allt í skýrslunni væri lygi og byggt á lausum fullyrðingum.“

Núna hefur lögreglan staðfest, hvernig ástandið leit í raun og veru út á frístundaheimilum í sveitarfélaginu Botkyrka og telur að það hafi einnig verið verra en áður kom fram í skýrslunni, að sögn Aftonbladet. Samkvæmt þeim voru starfsmenn viðriðnir glæpi og tengdust glæpahópum. Jafnframt telja heimildir lögreglunnar, að glæpamennirnir hafi í reynd umgengist börnin á tómstundaheimilunum. Lögreglumaður segir:

„Tómstundaheimilin voru afdrep fyrir glæpamenn þar sem fíkniefnaviðskipti fóru fram.“

Um síðustu helgi var Ebbu Östlin velt úr embætti formanns bæjarstjórnar eftir að Christina Zedell, formaður ABF, sem einnig situr í bæjarráðinu fyrir jafnaðarmenn í Botkyrka, sagði að reyna ætti traustið til Östlíns. Var glæpamönnum smalað á fund sósíaldemókrata til að greiða atkvæði gegn sitjandi bæjarstjóra Ebbu Östlin sem féll eftir tiltölulega jafna atkvæðagreiðslu, 90-88.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla