Lokun Héraðsskjalasafnsins í Kópavogi ófagleg og skapar óvissu

Lokun Héraðsskjalasafnsins í Kópavogi er óskiljanleg, ófagleg og skapar óvissu enda eru þau skjöl sem þar eru geymd í raun minni bæjarins og bæjarbúum afar mikilvæg og kær. Talverð hætta sé á að gögnin verði sett í gagnaeyðingu hjá Þjóðskjalasafni Íslands. Þetta segir Hrafn Sveinbjarnarson fráfarandi Héraðsskjalavörður safnsins í Menntaspjallinu í dag en hann var gestur Valgerðar Jónsdóttur.

Safnið er gríðarstórt og hefur að geyma öll skjöl bæjarins sem varða opinbera stjórnsýslu. Einnig varðveitir safnið mikið magn skjala, mynda og fleiri slíkra muna frá bæjarbúum sjálfum sem þeir hafa afhent safninu og ná skjölin mjög langt aftur í tímann. Hrafn segir þá ákvörðun að leggja skjalasafnið niður algjörlega óskiljanlega og hefur áhyggjur af því hvað verði um gögnin þegar þau verði afhent Þjóðskjalasafni Íslands enda hafi þau áform meðal annars verið uppi um magneyðingu gagna frá safninu.

Mikil óvissa um hvað verður um þessi skjöl

Þá sé mikil óvissa um yfirráð yfir gögnum frá safninu þegar þau hafa verið afhent Þjóðskjalasafninu því það er til dæmis mjög óljóst hvort starfsmenn á vegum Kópavogsbæjar muni hafa greiðan aðgang að gögnunum.

Meirihluti Bæjarstjórnar Kópavogs tók þessa ákvörðun

Hann segir meirihluta Bæjarstjórnar Kópavogs hafa tekið þá ákvörðun að leggja niður skjalasafnið og hafi minnihlutinn mótmælt nokkuð kröftuglega en ekki haft erindi sem erfiði og segir Hrafn mikið vanta uppá hvað varðar rökstuðning og fagmennsku sem verði að ríkja um slíkar ákvarðanir.

Bæjarbúar geta ekkert gert til að stöðva þetta

Hrafn segir að erfitt yrði að snúa ofan af þessari ákvörðun eftir að búið sé að afhenda Þjóðskjalasafninu gögnin og geti þannig orðið til þess að þessi skaðlega ákvörðun verði óafturkræf að einhverju leyti. Hann segir það erfiðast að íbúar í Kópavogi sem hafi treyst safninu fyrir gögnum sínum þurfi nú að horfa upp á skjölin fara úr bæjarfélaginu án þess að geta nokkuð við því gert.

Hlusta má á ítarlegri umræður um málið í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila