Lýsa yfir óvissustigi vegna skriðuhættu á Austfjörðum

Ríkislögreglustjóri í samvinnu við lögreglustjórann á Austurlandi og Veðurstofu Íslands hefur lýst yfir óvissu stigi á Austfjörðum vegna skriðuhættu.

Í tilkynningu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra segir að mikið hafi rignt á svæðinu í nóvember og sé grunnvatnsstaða mjög há á þeim svæðum þar sem hún er mæld, á Seyðisfirði og Eskifirði. Því er gert ráð fyrir að grunnvatnsstaða á öðrum nálægum svæðum sé einnig há og í raun landshlutanum öllum. Næstu daga er spáð áframhaldandi og töluverðri rigningu á Austurlandi og þá sér í lagi á fimmtudag og föstudag. Einnig er gert ráð fyrir hlýnandi veðri svo við bætist snjóbráð ofan á þá vætu sem fyrir er. Hætta er á skriðum við þessar aðstæður og hún getur aukist í úrkomu næstu daga.

Í tilkynningunni segir að sérstaklega sé fylgst með skriðuhættu á Seyðisfirði með vöktunarbúnaði sem þar hefur verið komið upp. Nú í nóvember hefur mælst hreyfing í Neðri-Botnum og Þófa. Mesta hreyfingin hefur verið á Búðarhrygg, en þar voru miklar hreyfingar síðasta haust. Hreyfingar utan hryggjarins hafa verið mun minni.

Veðurstofa Íslands fylgist vel með aðstæðum allan sólarhringinn og hefur samráð við Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og lögregluna á Austurlandi.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila