Málefni Grindvíkinga verði áfram í forgrunni innan stjórnkerfisins

Það þarf að leggja ríka áherslu á að málefni Grindvíkinga verði áfram í forgrunni innan stjórnkerfisins þar sem afkoma þeirra, húsnæðisöryggi og opinber þjónusta verði tryggð og að staðið verði með því fjölbreytta atvinnulífi sem starfrækt er á svæðinu. Þetta er meðal þess sem fram kemur í stjórnmálaályktun Framsóknarflokksins frá miðstjórnarfundi flokksins sem haldinn var í Vík í Mýrdal um helgina.

Í ályktuninni kemur fram að hugur flokksmanna sé hjá Grindvíkingum vegna náttúruhamfara á Suðurnesjum. Samfélag er samvinnuverkefni þar sem íbúar landsins standa hverjir með öðrum í kjölfar atburða sem þessara líkt og bersýnilega hefur komið í ljós.

Þá er einnig fjallað í ályktuninni um alvarlega stöðu bænda, húsnæðismál og utanríkismál en um stöðu bænda segir að öflug og innlend matvælaframleiðsla sé þjóðaröryggismál fyrir Ísland. Því verði að tryggja bændum, og sér í lagi ungum bændum, eðlileg starfsskilyrði og afkomu fyrir vinnuframlag
sitt.

Sjá má ályktunina í heild hér að neðan

Hugur flokksmanna er hjá Grindvíkingum vegna náttúruhamfara á Suðurnesjum. Samfélag
er samvinnuverkefni þar sem íbúar landsins standa hverjir með öðrum í kjölfar atburða sem
þessara líkt og bersýnilega hefur komið í ljós. Miðstjórn Framsóknar leggur ríka áherslu á að
málefni Grindvíkinga verði áfram í forgrunni innan stjórnkerfisins þar sem afkoma þeirra,
húsnæðisöryggi og opinber þjónusta verði tryggð og að staðið verði með því fjölbreytta
atvinnulífi sem starfrækt er á svæðinu.

Miðstjórn Framsóknar krefst þess að fjármálastofnanir sýni samstöðu með Grindvíkingum í
ljósi náttúruhamfaranna og fari í raunverulegar aðgerðir sem létta undir með íbúum. Arðsemi
fjármálastofnana hefur aukist verulega og telur miðstjórn Framsóknar mikilvægt að ráðist
verði í þær aðgerðir sem fyrst til að eyða óvissu.

Undanfarin ár hafa falið í sér stórar áskoranir á heimsvísu þar sem heimsfaraldur, stríðsátök,
loftslags- og náttúruvá hafa haft áhrif á alþjóða- og efnahagsmál. Keppikefli
efnahagsstjórnarinnar er að ná verðbólgunni niður í þágu samfélagsins alls. Slíkt verkefni
verður ekki leyst nema í samvinnu stjórnvalda, Seðlabanka Íslands og aðila
vinnumarkaðarins. Lægri vextir eru stærsta hagsmunamál heimila og fyrirtækja. Gæta verður
að því að samfélagið festist ekki í vítahring sem háir stýrivextir geta leitt af sér, til að mynda
með slæmum afleiðingum á húsnæðismarkaði.

Öflug og innlend matvælaframleiðsla er þjóðaröryggismál fyrir Ísland. Því verður að tryggja
bændum, og sér í lagi ungum bændum, eðlileg starfsskilyrði og afkomu fyrir vinnuframlag
sitt. Miðstjórn Framsóknar bindur miklar vonir við að væntanlegar tillögur starfshóps
stjórnvalda um fjárhagsstöðu bænda verði til þess fallnar að snúa vörn í sókn.
Miðstjórn Framsóknar lýsir yfir ánægju með framgang ýmissa málaflokka sem flokkurinn ber
ábyrgð á í ríkisstjórnarsamstarfinu.

1. Ný húsnæðisstefna og aukin framlög til málaflokksins munu marka leiðina fram á við.
Áframhaldandi kröftug uppbygging samgönguinnviða, hvort sem um ræðir vegi,
flugvellir eða hafnir, bætir búsetuskilyrði og samkeppnishæfni landsins alls.

2. Skýr aðgerðaáætlun í ferðaþjónustu mun styrkja umgjörð greinarinnar og búa í
haginn fyrir aukna verðmætasköpun í sátt við samfélagið. Neytendamál hafa loksins
verið sett á dagskrá stjórnmálanna, til að mynda með greinargóðu aðhaldi gagnvart
fjármálafyrirtækjum og ný og spennandi tækifæri raungerst á sviði menningarmála.

3. Góður árangur hefur náðst í að efla heilbrigðiskerfið, til að mynda með samvinnu hins
opinbera og einkageirans með samningum við sérgreinalækna sem aukið hafa
aðgengi sjúklinga að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Mikilvægt er að halda áfram
að efla heilbrigðisþjónustu í nærsamfélögum með jafnt aðgengi óháð efnahag og
búsetu að leiðarljósi.

4. Róttækar breytingar sem gerðar hafa verið á málefnum barna munu bæta lífsgæði
þeirra og foreldra þeirra. Aðsókn í iðn-, verk- og kennaranám hefur stóraukist og
unnið er að metnaðarfullum áformum um nýja sókn í þágu íþróttamála í landinu.
Miðstjórn Framsóknar vill undirstrika að hryggjarstykkið í utanríkisstefnu Íslands er vestræn
samvinna og undirstrikar stuðning við Úkraínu. Miðstjórn fordæmir árásir á almenna borgara
í Ísrael og Palestínu. Miðstjórn hvetur stjórnvöld til að halda á lofti mannúðlegum gildum og
tala fyrir friðsamlegum lausnum.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila