Hvalveiðibann Svandísar svavarsdóttur matvælaráðherra er forkastanleg nálgun og óboðleg stjórnsýsla. Engu sé líkara en að markmið ráðherra hafi verið að valda sem mestum skaða. Þetta var meðal þess sem fram kom í viðtali Arnþrúðar Karlsdóttur útvarpsstjóra við Bergþór Ólason þingmann Miðflokksins í dag, þar sem rætt var um hvalveiðibannið sem sett var á í gær.
Bergþór bendir á að fagráðið sem skrifaði skýrsluna sem ráðherra sagðist byggja ákvörðun sína á væri skipað fólki sem hafi haft miklar skoðanir á hvalveiðum á fyrri stigum.
„svo er eitt og annað því til viðbótar. Ég einfaldlega trúi því ekki að samstarfsflokkar Vinstri grænna séu tilbúnir til þess að láta málin enda með þessum hætti, það munu vera fréttir ef að sú verður raunin“segir Bergþór.
Svandís greindi frá banninu er flestir voru farnir af ríkisstjórnarfundi
Hann segir málið þeirrar gerðar að Svandís hafi fyrst sagt frá ákvörðun sinni á ríkisstjórnarfundi á þann hátt að nefna það í framhjáhlaupi undir liðnum önnur mál þegar flestir ráðherrar hafi verið farnir af fundinum, þar á meðal Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins.
„það getur því varla annað en ært Sjálfstæðismenn sem nú þurfa að sitja undir þessari ákvörðun“segir Bergþór.
Um fyrirhugaðan fund í atvinnuveganefnd vegna málsins segir Bergþór að það sé vissulega gott að ræða málin í nefndum.
„hins vegar er það þannig að ákvörðunin hefur svo alvarleg áhrif, svo hratt að það er hætt við að þetta verði bara spjallfundur um orðinn hlut. Ef það á að færa þessa ákvörðun til betri vegar þá þarf að ganga strax til þess verks“ segir Bergþór.
Aðspurður um hvort hann sé að vísa til þess að ríkisstjórnin þurfi að funda um málið segir Bergþór það blasa við.
Hann bendir á að Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra teldi að Svandís hefði brotið stjórnsýslulög með ákvörðun sinni.
„og ef ég man rétt þá notuðu Vinstri grænir það sem megin rök fyrir því að reyna að þvinga Sigríði Andersen úr sínu ráðherraembætti á sínum tíma. Þannig þeir ætlast greinilega til að það gildi aðrar reglur um þá núna heldur en ráðherra Sjálfstæðisflokksins hér áður“segir Bergþór.
Hlusta má á viðtalið hér að neðan