Site icon Útvarp Saga

Matarskortur gæti leitt til þess að 20 miljónir Afríkubúa reyndu að komast til Evrópu

Leiðtogi ítalska Lega-flokksins og fyrrum innanríkisráðherra landsins, Matteo Salvini, varar við því að stríðið í Úkraínu gæti leitt til fjöldahungursneyðar í Afríku og nýrrar flóttamannakreppu, þar sem tugir milljóna örvæntingarfullra Afríkubúa gerðu allt til að komast yfir landamæri Evrópu.

Hungursneyð handan hornsins ef Úkraínustríðið heldur áfram

Í stórum hlutum Afríku er ekki hægt að rækta korn af ýmsum ástæðum. Mörg lönd álfunnar eru háð innflutningi frá þróuðum löndum til að sjá íbúum sínum fyrir mat. Rússneska innrásin í Úkraínu hefur í raun stöðvað þessi kornaviðskipti og ef stríðið heldur áfram, bíður hungursneyð handan við hornið.

Það er skoðun Matteo Salvini, leiðtoga Lega-flokksins á Ítalíu en hann var innanríkisráðherra Ítalíu og aðstoðarforsætisráðherra til ársins 2019. Í pólitísku starfi sínu hefur Salvini lagt mikla áherslu á málefni innflytjenda og hann varar nú við flóttamannakreppu í kjölfar Úkraínustríðsins í þvílíkri stærðargráðu að flóttamannaárið mikla verði sem barnaleikur til samanburðar. Salvini segir:

„Búist er við víðtækri hungursneyð á meginlandi Afríku, sem verður mannúðlegt, síðan félagslegt vandamál og að lokum ítalskt vandamál.

Flóðbylgjur innflytjenda yfir Miðjarðarhafið

Ítalía er eitt þeirra landa, sem vegna landfræðilegrar legu sinnar verður einna verst fyrir barðinu á flóðbylgjum ólöglegra innflytjenda og mannsmygls yfir Miðjarðarhafið. Og að þessu sinni gæti það orðið verra en nokkru sinni fyrr ef stríðið í Úkraínu heldur áfram, segir Salvini:

„Án friðar verður hungursneyð í haust og 20 milljónir Afríkubúa búa sig undir að flytja annað.“

Salvini telur að friður verði að komast á Í lok maí til að koma í veg fyrir nýja risavaxna flóttamannakreppu. Hann hefur þegar farið fram á fund stjórnmálaandstöðunnar með Mario Draghi forsætisráðherra, sem nýverið kom af leiðtogafundi með Joe Biden Bandaríkjaforseta, þar sem vopnahlé í Úkraínu var á dagskrá.

Varar við vopnaútflutningi til stríðsins

Salvini er gagnrýninn á hvernig Evrópuríki yfirfylla svæðið með vopnum og segir það færa friðinn sífellt lengra burtu. Ítalía er að hefja sína þriðju vopnasendingu til Úkraínu.

„Ef 80 milljörðum evra verður varið til vopnakaupa í Evrópu verður erfitt að ná friði. Því fleiri vopn sem eru í umferð, þeim mun lengra burt flytur friðurinn. Það eru til lönd í Evrópu sem vilja hafa stríð en Ítalía, Frakkland og Þýskaland verða að vinna að friði.“

Úkraína, sem áður var lýst sem „kornhlöðu Sovétríkjanna“ er áfram í fararbroddi sem sjötti stærsti útflytjandi korns í heiminum eftir fall ráðstjórnarríkjanna.

Í síðustu viku kom í ljós, að ekki er hægt að flytja út korn frá Úkraínu að andvirði 100 milljarða sænskra króna, vegna hindrana tengdum stríðinu. Skortur á vissum matvælum er farinn að gera vart við sig í öðrum heimshlutum en Afríku með tilheyrandi verðhækkunum og skömmtunum.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla