Meirihluti forsetaframbjóðenda gerir kröfu um að RÚV skipti ekki upp kappræðunum

Níu forsetaframbjóðendur af tólf hafa sent útvarpsstjóra RÚV sameiginlegt erindi þar sem farið er þess á leit við hann að fyrirhugaðar kappræður næstkomandi föstudag verði settar upp á þann hátt að frambjóðendum verði ekki skipt upp í tvo hópa eins og fyrirhugað er.

Í bréfinu segir að mikil og almenn ánægja hafi verið með útsendingu RUV á fyrri kappræðum og þá góðu yfirsýn sem kjósendur fengu með því fyrirkomulagi að hafa alla frambjóðendur saman.

„Ef ekki verður fallist á þá lýðræðislegu kröfu að hafa þáttinn með sama sniði og síðast þá
væri hægt að koma til móts við hugmynd RUV um tvo þætti með þeim hætti
að varpa hlutkesti um það hverjir frambjóðenda raðast í hvorn þátt undir eftirliti
umboðsmanna allra framboðanna. Það væri lýðræðislegt og heiðarlegt.“ segir í bréfinu.

Þá benda frambjóðendurnir á að skoðanakannanir taki aðeins til brotabrots af kosningabæru fólki á Íslandi og ef litið er til úrslita í síðustu forsetakosningum þar sem úrslit voru á skjön við niðurstöður kannana, er ljóst að ekki er lýðræðislegt að skoðanakannanir séu grundvöllur ákvarðanatöku
Ríkisútvarpsins.

„Við skulum heldur líta til þeirra þjóða sem stöðva birtingu skoðanakannana vikum fyrir
kosningar af augljósum lýðræðisástæðum svo kjósendur geti fengið næði og ráðrúm til að
mynda sér skoðanir án íhlutunar einkafyrirtækja. Við undirrituð, þrír fjórðu frambjóðenda gerum þá kröfu að vilji okkar verði virtur samkvæmt ofangreindu.“ segir í bréfinu.

Undir bréfið rita:

Arnar Þór Jónsson
Ásdís Rán Gunnarsdóttir
Ástþór Magnússon Wium
Eiríkur Ingi Jóhannesson
Halla Hrund Logadóttir
Halla Tómasdóttir
Helga Þórisdóttir
Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir
Viktor Traustason

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila