Miðflokkurinn með meira fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn í nýrri könnun

könnun Maskínu sýnir að Miðflokkurinn er nú með marktækt meira fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn. Miðflokkurinn mælist með 17 prósenta fylgi og hefur bætt við sig tæpum tveimur prósentustigum frá síðustu könnun í ágúst. Ef þetta fylgi endurspeglaðist í kosningum gæti flokkurinn tryggt sér 10 til 11 þingmenn, samanborið við þrjá þingmenn í síðustu kosningum.

Sjálfstæðisflokkurinn stendur nánast í stað milli kannana og mælist með 13,4 prósenta fylgi. Þetta eru óvenjulegar niðurstöður fyrir flokkinn sem hefur lengi verið stærsti stjórnmálaflokkur landsins.

Samfylkingin dalar örlítið um hálft prósentustig en mælist enn stærst með 25 prósent fylgi. Framsóknarflokkurinn er hins vegar í verulegum vandræðum með aðeins 7,6 prósenta fylgi.

Flokkur fólksins hástökkvari könnunarinnar

Flokkur fólksins eykur verulega við fylgi sitt eða um 30% frá síðustu könnun og mælist með 8,8 prósent, rétt á undan Pírötum sem standa í stað með 8,5 prósent. Viðreisn heldur einnig áfram að bæta við sig fylgi og mælist með 11,3 prósent, sem þýðir að lítill munur er á fylgi hennar og Sjálfstæðisflokksins.

Sósíalistaflokkurinn er við það að ná fulltrúum á þing með 4,7 prósent fylgi, en Vinstri græn mælast með 3,7 prósent og eru í hættu á að missa alla sína þingmenn.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila