Mikið áfall fyrir fangaverði að verða fyrir árás

Það er mjög mikið áfall fyrir fangaverði þegar þeir verða fyrir árás við störf sín og slík atvik fylgja mönnum alltaf eftir að þau verða. Þetta segir Gunnar Valur Jónsson fyrrverandi fangavörður til 40 ára en hann var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur í síðdegisútvarpinu. Gunnar starfaði meðal annars á Litla hrauni í 17 ár og um árabil í Hegningarhúsinu á Skólavörðustíg, fangelsinu í Síðumúla og svo kvennafangelsinu í Kópavogi.

Dópið í fangelsum veldur mikilli spennu

Gunnar Valur segir að það sem helst valdi óróleika inni í fangelsunum sé þegar dópi sé smyglað inn í fangelsin. Sá óróleiki geti verið af mjög fjölbreyttum toga. Þeir hópar fanga sem ekki séu í neyslu verði ósáttir við að verið sé að nota slík efni innan fangelsanna síðan séu það hópar sem bítast um að fá sinn skammt af því efni sem kemur inn í fangelsið.

Árás á fangaverði alltaf tekið alvarlega

Gunnar Valur segir að þegar fangavörður verði fyrir árás þá sé það alltaf litið alvarlegum augum. Hann segir að þegar hann starfaði innan fangelsanna hafi það komið fyrir að ráðist hafi verið á fangaverði en það hafi þó verið sjaldgæft. Því sé honum brugðið og þyki hörmulegt að heyra af þeim árásum sem fangaverðir hafi orðið fyrir að undanfönu. Aðspurður um hvers eðlis þær árásir hafi verið þegar hann starfaði innan fangelsanna segir Gunnar að það hafi verið komið aftan að fangavörðum og þeir teknir hálstaki og þá sagði Gunnar frá máli þar sem fangavörður hafi verið laminn með barefli.

Hnúajárn búið til úr matargöfflum

Þegar Gunnar er spurður um hvernig fangar komist yfir vopn þá segir Gunnar að það séu ótrúlegustu hlutir sem menn hafi búið til vopn úr. Til að mynda hafi Gunnar vitneskju um að menn hafi búið til hnúajárn úr matargöfflum. Þá sé smygl á fíkniefnum oft erfitt viðureignar og ótrúlegasta fólk sé að smygla dópi inn í fangelsin. Hann segir að reynsla sín af föngum undir áhrifum sé sú að þeir sem séu að taka pillur séu oft æstari og varasamari en þeir sem hafi verið að neyta kannabis.

Árásir á fangaverði hefur áhrif á umsóknir um starfið

Aðspurður um hvort árásir á fangaverði hafi ekki áhrif á áhuga fólks um að starfa sem fangaverðir segir Gunnar að það sé viðbúið. Það komi auðvitað upp sú hugsun hvort það sé skynsamlegt að starfa við þetta því menn eigi fjölskyldur og slíkt.

Haraldur Johannessen hafi verið til fyrirmyndar sem stjórnandi fangelsanna á sínum tíma

Hvað varðar þá þróun sem nú sé að birtast innan fangelsanna segir Gunnar Valur aðspurður að það sé mikilvægt að stjórnendur fangelsanna séu á ganginum og séu innan um fanganna en loki sig ekki inni á skrifstofum. Það þurfi að taka stjórnina inni í fangelsunum og segir Gunnar að Haraldur Johannessen hafi haft einstaklega góða stjórn í fangelsunum á sínum tíma.

Hlusta má á ítarlegri umræður í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila