Mikil vinna sem felst í því að verða góður óperusöngvari

Það er gríðarleg vinna sem felst í því að verða góður óperusöngvari og eins og gefur að skilja eru ekkert allir tilbúnir að leggja slíkt á sig, en fyrst og fremst snýst þetta um að hafa mjög sterka og góða rödd og af þeim er ekkert mikið til af á Íslandi. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Kristjáns Jóhannssonar óperusöngvara með meiru í síðdegisútvarpinu í dag en hann var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur.

Kristján segir Verdi hafi sagt á sínum tíma að til þess að verða góður óperusöngvari þurfi þrennt til sem mestu máli skipti, það sé að hafa rödd, rödd og aftur rödd. Til þess að setja í samhengi fyrir lesendur þá nota óperusöngvarar ekki hljóðnema eins og hefðbundnir söngvarar gera og þegar um stór verk sé að ræða þurfi óperusöngvarinn að koma röddinni í gegnum allt að 100 manna hljómsveit sem er alls ekki fyrir neina aukvisa.

Þá segir Kristján að það sé lykilatriði að menn hafi ástríðu fyrir tónlist og söng. Hér á landi sé fjöldi fólks sem taki þátt í kórastarfi, syngi við jarðarfarir og aðrar athafnir í kirkjum og víðar sem sé gott, gilt og yndislegt segir Kristján og bætir við að maður verði ekkert nema bara betri maður af því að syngja og spila á hljóðfæri. Það séu hins vegar fáir útvaldir sem nái því að verða svokallaðir stórsöngvarar og syngja um heim allan.

Átak að búa í ferðatösku í 40 ár

Það að verða stórsöngvari er þó ekki fyrir alla segir Kristján og segir það vera visst átak að vera burtu frá sínum nánustu um langan tíma og búa í raun í ferðatösku í 40 ár eins og Kristján hafi gert enda séu stórsöngvarar að ferðast mikið vinnu sinnar vegna eins og gefi að skilja.

Þá er margt sem spili saman að velgengni stórsöngvara, til dæmis vilji viðkomandi, að vinna með rétta fólkinu og átta sig á því hvaða tromp er manns stóra tromp.

Söng í tíu ár áður en hann áttaði sig á stóra trompinu

Hann segir að hans stóra tromp hafi verið raddgæðin og raddstyrkurinn sem eins og flestir vita að er gríðarmikill. Hann hafi þó ekki strax á ferlinum áttað sig á hvert hans stóra tromp var og var búinn að syngja í um 10 ár þegar hann áttaði sig á því.

„þá fór ég yfir í verkefni sem kröfðust meira af mér heldur en þau verkefni sem ég hafði verið með áður, þá uppgvötaði ég hvaða tromp ég hefði, það er líka það sem menn verða að skilja er að maður þarf að hafa dómgreind til þess að finna styrkleika sína“.

Hann segir sönginn gefa ákveðna lífsfyllingu og til dæmis sé það ekki nóg fyrir Kristján að elska fjölskylduna og borða mat því án söngs væri hann bara hálfur maður að hans mati.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila