Mikilvægt að smáríki hugi að framtíðinni í viðskiptum og vörnum

Á tímum spennu í alþjóðamálum og milli stórveldanna er mikilvægt að Norðurlöndin, Eystrasaltsríkin og Vísegrád tólf hugi að því hvernig þau ætla að hátta viðskiptum sínum í framtíðinni en um leið gæta öryggishagsmuna sinna. Þau háð Bandaríkjunum í öryggismálum en þurfa líka að geta átt í utanríkisviðskiptum við Bandaríkin. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Hilmars Þórs Hilmarssonar prófessors í alþjóðaviðskiptum og hagfræði í síðdegisútvarpinu í dag.

Á sama tíma og lönd eins og Ísland þarf á vörnum að halda frá Bandaríkjunum og NATO er nauðsynlegt að eiga viðskipti við stórveldi eins og Kína. Hilmar bendir á að hagkerfið í Kína sé orðið svo stórt að nánast ómögulegt sé að komast hjá viðskiptum við landið, og hagkerfi þess fer enn stækkandi. Lönd eins og Visegrád löndin og Eystrasaltsríkin gætu líka í vaxandi mæli sóst eftir fjárfestingum frá Kína t.d. í innviðum.

„það eru þarna lönd sem vilja fá fjármagn frá Kína og eiga í viðskiptum við Kínverja og þau hafa ákveðnar væntingar um það, þannig að ég held að þessi lönd ásamt okkur á Íslandi eigum að reyna að halda því að geta átt í viðskiptum og góðum samskiptum við Kína þó við séum í öryggissamskiptum við Bandaríkin“segir Hilmar.

Hvað varðar hvaða afstöðu smáríki eins og Ísland ætti að taka nú á tímum harðnandi samskipta stórveldanna segir Hilmar að Ísland geti ekki annað en fordæmt framgöngu Rússa í Úkraínu eins og flestir geri en hann sé þeirrar skoðunar að það hafi verið mistök að hafa ætlað að þenja út NATO svona langt í austur með aðild Úkraínu og Georgíu og bendir á að Rússar séu ekki einir á móti því heldur einnig kínverjar. Hvorki ESB eða NATO séu tilbúin að veita Úkraínu aðild í náinni framtíð.

„þar fóru vesturlönd fram úr sér að mínu mati, við erum að tala um stækkun NATO og stækkun ESB og hvorugt er raunhæft, þetta var óþarfi og svo fór stríðið af stað“ segir Hilmar.

Getur komið sér vel að eiga í viðskiptum við innviðabanka Asíu (Asian Infrastructure Investment Bank)

Aðspurður um hvers vegna Evrópuríki eins og Ísland og fleiri lönd setji fjármuni í innviðabanka Asíu segir Hilmar að það geti verið gott fyrir ríki að vera aðili að þessum banka til dæmis ef fyrirtæki á sviði orkumála eins og jarðhita vilji víkka út starfsemi sína í Asíu.

„þá getur verið gott að vera aðili að þessum banka til dæmis til að hafa aðgang að fjármagni og kaupa tryggingar gegn stjórnmálaáhættu og slíka hluti, það eru íslensk fyrirtæki sem hafa verið að skoða möguleikana á fjárfestingum í Asíu og samstarfi við Asíuríki og þá gæti verið kostur að vera aðili að þessum banka og það var til dæmis ákveðið hér á landi og ég held að það hafi verið gert með viðskiptahagsmuni í huga“segir Hilmar.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila