Mikill áhugi á auknu samstarfi á milli Búlgaríu og Íslands á sviði endurnýjanlegrar orku og orkunýtni

Þátttakendur frá Íslandi á fundinum.

Unnið er að undirbúningi fyrir nýja áætlun Uppbyggingarsjóðs EES 2014–2021 í Búlgaríu, á sviði endurnýjanlegrar orku s.s. jarðhita, vatnsafls og orkunýtni. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu á vef Orkustofnunnar. Í tilkynningunni kemur fram að eitt af markmiðum Uppbyggingarsjóðs EES sé að efla samvinnu og skapa tengsl milli ríkja Evrópu sem um leið færir aðilum aukna þekkingu og kunnáttu til að vinna að samstarfsverkefnum á ýmsum sviðum. Slíkt er m.a. gert með því að koma á tengslum milli fyrirtækja og einstaklinga í þessum löndum fyrir núverandi fjármögnunartímabil og undirbúa möguleg verkefni fyrir áætlunina.
Orkuáætlunin í Búlgaríu á að stuðla m.a. að því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og losun gróðurhúsalofttegunda sem gagnast öllum löndum óháð landamærum.

Orkumálaráðuneyti Búlgaríu er umsjónaraðili áætlunarinnar en Orkustofnun á Íslandi annast ráðgjöf við stjórnvöld í Búlgaríu fyrir hönd utanríkisráðuneytisins á Íslandi.

Vegna þessa var haldinn kynningarfundur 22. maí sl. í Sofíu, höfuðborg Búlgaríu, á vegum orkumálaráðuneytis Búlgaríu sem fyrirtæki og stofnanir á Íslandi sóttu og var mikill áhugi á samstarfi á milli landanna. Rúmlega 200 aðilar frá Búlgaríu sóttu fundinn, aðallega frá sveitarfélögum og fram kom mikill áhugi hjá þeim að auka samstarf við aðila á Íslandi um margvísleg verkefni á sviði endurnýjanlegrar orku, vatnsaflsvirkjana, hitaveitna og orkunýtni.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila