Mikill skákáhugi á Grænlandi – Teflt í afskekktustu þorpum Grænlands

Það var fyrir rúmum tuttugu árum sem Hrafn Jökulsson skákfrömuður hafði samband við Róbert Lagerman FIDE meistara og eftir samtal þeirra varð ein mesta skákbylting sem um getur á Grænlandi. Þetta kom fram í þættinum Við skákborðið þar sem Róbert var gestur þáttarins ásamt Veroniku Steinunni Magnúsdóttur fyrrverandi landsliðskonu í skák.

Þetta kaffispjall Hrafns og Róberts átti eftir að hafa mikil áhrif á skáklíf á Grænlandi því þeir félagar fóru að velta því fyrr sér hvort menn væru yfir höfuð að tefla á Grænlandi. Litlar heimildir fundu þeir um það en úr þessu varð ferð þeirra félaga til Grænlands þar sem þeir ákváðu að halda stórt skákmót sem gerði mikla lukku og áttu mótin svo eftir að verða fjölmörg.

Meðal annars hafa verið haldin mót í afskekktustu byggðum Grænlands, meðal annars í þorpi sem er um 850 kílómetrum frá næsta byggða bóli.
Á þessum tuttugu árum hefur verið haldinn mikill fjöldi skákmóta og margar af skærustu stjórnum skákíþróttarinnar hafa þar komið og tekið þátt í mótum.

Hrafn Jökulsson og Róbert Lagerman þekktir fyrir skákina á Grænlandi

Veronika sem tekið hefur þátt í mótum segist ekki hafa farið varhluta af því hvað þeir félagar hafa byggt upp skáklífið í landinu og segir hún að nánast hvert einasta mannsbarn í þeim þorpum sem hefur verið teflt í þekki til þeirra Hrafns og Róberts.

Hlusta má á ítarlegri umfjöllun um skákvæðinguna á Grænlandi í spilaranum hér að neðan.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila