Mikilvægast að fólk byrji aldrei að neyta áfengis

Það virkar best í baráttunni gegn áfengisneyslu að ná til barna og koma í veg fyrir að þau byrji nokkurn tíma að drekka og það er eitt helsta markmið IOGT á Íslandi. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Björns Sævars Einarssonar veðurfræðings og formanns Bindindissamtaka IOGT á Íslandi í viðtali við Kristján Örn Elíasson í dag.

Samtökin sem eru hluti af alþjóðahreyfingu IOGT hafa með ötulu og markvissu starfi barist fyrir því að sem fæstir neyti áfengis og koma þannig veg fyrir þann skaða sem af neyslunni hlýst.

Björn bendir á að besta leiðin til þess að koma í veg fyrir að börn byrji að neyta áfengis er að eiga í miklum og góðum samskiptum við fjölskylduna, það sé lykilatriði í baráttunni. Hann bendir á að því seinna sem fólk byrji að neyta áfengis þeim mun meiri líkur séu á að fólk verði ekki alkahólisma að bráð. Besta forvörnin sé þó að fólk taki aldrei þennan fyrsta sopa sem oft leiðir til mikilla hörmunga fyrir fjölskyldur og þar með samfélagið. Samvera með fjölskyldu til dæmis um verslunarmannahelgi er gott dæmi um hvernig halda megi utan um börnin þegar mikið er um áfengisneyslu í umhverfinu.

Það er þó í mörg horn að líta þegar kemur að baráttunni gegn áfengi því framleiðendur áfengis eru stórtækir í að auglýsa vörur sínar, meðal annars á íþróttakappleikjum, sjónvarpi, blöðum og samfélagsmiðlum, einmitt þar sem einn helsti vettvangur nútímabarna sé.

Þá bendir Björn á að mestu tekjurnar eru framleiðendurnir að fá frá fólki sem drekkur hvað mest, þ,e fólki sem á við alkahólisma að stríða og er oft á tíðum orðið mjög langt leitt af áfengissýki.

Einn liður í baráttu samtakanna er að reyna að hafa áhrif á stjórnvöld og hvetja þau til þess að reyna að draga úr áfengisdrykkju og fyrir nokkru sendu samtökin opið bréf til stjórnvalda sem sjá má með því að smella hér en í bréfinu eru stjórnvöld spurð áleitinna spurnina um áfengismál en bréfinu hefur enn ekki verið svarað.

Hlusta má á viðtalið í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila