Mikilvægt að fólk undirbúi sig undir verstu eldgosin á Reykjanesi

Það er mjög mikilvægt að yfirvöld og almenningur undirbúi sig undir að eldgos gætu orðið á verri stöðum á Reykjanesi en orðið hefur hingað til. Það er brýnt að hafa í huga mögulega allra verstu tilfellin. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Þorvaldar Þórðarsonar eldfjallafræðings og prófessors við HÍ í þætti Arnþrúðar Karlsdóttur í dag. Þorvaldur tekur fram að hann sé ekki að halda því fram að þetta muni gerast en það sé áríðandi að fólk átti sig á, hvar helstu áhættusvæðin liggja.

Ef gýs í Krísuvíkurreininni þýðir það nálægð við Hafnarfjörð

Hann segir að það færi vel á því að byrja að skilgreina hvað gætu talist verstu tilfellin. Ef það gýs sunnan til á Brennisteinsfjallareininni þá yrði það ekkert stórmál fyrir Reykjavík eða Reykjanesbæ. Öðru máli gegnir ef það færi að gjósa á Krísuvíkurreininni og sér í lagi ef það yrði norðanlega því þá myndu gosgígar verða aðeins í um fjögurra til fimm kílómetra fjarlægð sunnan og austan við Hafnarfjörð.

Vellirnir og Straumsvík í hættu ef gýs á Krísuvíkurreininni

Ef eldgos kæmi upp á Krísuvíkurreininni myndu svæði eins og Vellirnir og Straumsvík að líkindum verða í hættu á að verða fyrir hraunflæði. Þorvaldur ítrekar að þegar hann nefni þetta þá sé hann ekki að segja að það muni gerast heldur sé mikilvægt að átta sig á að verið sé að tala um að það séu líkur á því að þessi atburðarrás geti gerst.

Ráðleggur yfirvöldum í Hafnarfirði að byggja ekki lengra til suðurs

Hann segir að hann hafi bent skipulagsyfirvöldum í Hafnarfirði á að rétt væri að byggja ekki lengra til suðurs út frá Vallarhverfinu því ef það kemur til eldgoss nærri Helgafelli þá færi hraunflæði frá því gosi, eðli málsins samkvæmt, eftir lægstu punktum til sjávar og þau svæði liggja um Vellina.

Hlusta má á ítarlegri umræðu um málið í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila