Mikilvægt að skákmenn geti tileinkað sér mismunandi tækni

Það er mjög mikilvægt að skákmenn geti tileinkað sér mismunandi tækni í skáklistinni og beiti þeirri tækni við ólíkar aðstæður og mótherja. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Vignis Vatnars Stefánssonar stórmeistara í skák og Hilmi Freys Heimissonar alþjóðlegs skákmeistara í þættinum við skákborðið í dag.

Í þættinum kom fram að að þeir félagar séu nokkuð ólíkir skákmenn, noti ólíka tækni og segir Hilmir að hann hafi í gegnum tíðina reynt að finna sér sinn eiginn stíl og stefnir hann að því að það verði hvergi til veikleikar á honum sem skákmanni. Hann hafi til dæmis tileinkað sér að verða eins góður og hann getur alls staðar á skákborðinu. Það geri hann með því að meta hvar hann geti nýtt sér „hægar stöður“ og „hraðar stöður“. Sumir skákmenn tileinki sér að leika ákveðið og hvasst og sprengja þannig upp borðið upp eins og það er kallað með beinum árásum. Leiki menn hins vegar rólega á móti slíkum mótherja, þ.e. verjist yfirvegað gegn þessum árásum, er allt eins víst að mótherjinn endi með tapað tafl.

Segir Hilmir að Vignir sé til dæmis mjög góður í því að tefla hægar stöður, þ.e. hann gefi sér tíma til að byggja upp góða stöðu, og undir það tekur Vignir. Vignir er einnig sammála Hilmi um að það sé stundum gott að geta teflt mjög ákveðið og hvasst gegn ákveðnum mótherjum. Hann segist vera að vinna í því auka fjölbreytileikann hjá sér við skákborðið og að þessi leikstíll muni fljótlega bætast í annars gott vopnasafn sitt.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila