Á morgun, þriðjudaginn 10. september, fara fram mótmæli á Austurvelli, þar sem farið verður fram á aðgerðir gegn hækkandi vöxtum og húsnæðiskreppu. Mótmælin eru skipulögð af stærstu heildarsamtökum launafólks á Íslandi, þar á meðal Alþýðusambandi Íslands (ASÍ) BSRB og Kennarasambandinu. Aðgerðirnar eru ætlaðar til að vekja athygli á alvarlegu ástandi á húsnæðis- og fjármálamarkaði. Þetta kom fram í máli Ragnars Þórs Ingólfssonar formanns VR og Ásthildar Lóu Þórsdóttur þingmanns Flokks fólksins og formanns Hagsmunasamtaka heimilanna í Síðdegisútvarpinu í dag en þau voru gestir Arnþrúðar Karlsdóttur. Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan.
Í viðtalinu ræddu Ragnar Þór og Ásthildur um mótmælin á morgun sem er einmitt þingsetningardagur. Ragnar Þór lagði áherslu á að ríkisstjórnin þurfi að vakna og bregðast við alvarlegri stöðu heimila og fyrirtækja sem glíma við hækkandi vaxtakostnað og verðbólgu. Hann sagði að það hefði ekki verið gripið til raunverulegra aðgerða til að bæta stöðuna og að húsaleigulögin sem sett voru á þingi hefðu í raun tekið mið af kröfum sérhagsmunaafla.
Það verður að lækka vexti strax
Ásthildur Lóa bætti við að neyðarástand væri hjá mörgum fjölskyldum vegna vaxtahækkana og óviðráðanlegs húsnæðiskostnaðar. Hún taldi að það væri nauðsynlegt að lækka vexti strax og hefja markvisst ferli til þess að draga úr vaxtaálagi á heimili landsins. Hún benti einnig á að margir væru í þeirri stöðu að geta ekki staðið undir afborgunum vegna breyttra lána- og vaxtakjara.
Fyrirtæki eiga að gefa fólki frí til að mótmæla
Á mótmælunum verða haldnar ræður þar sem farið verður yfir þau helstu mál sem snerta heimilin og fólkið í landinu auk þess sem flutt verða tónlistaratriði. Skipuleggjendur mótmælanna skora á fyrirtæki að gefa starfsfólki frí til að taka þátt í mótmælunum þar sem þessi mál snerta hagsmuni skuldsettra heimila og fyrirtækja um allt land.
Hlusta má á ítarlegri umfjöllun í spilaranum hér að neðan