Site icon Útvarp Saga

Múhameðsskopteiknarinn Kurt Westergaard er dáinn

Hinn þekkti danski listamaður Kurt Westergaard er látinn 86 ára að aldri. Westergaard varð víða þekktu, þegar mynd hans af Múhameð spámanni múslima var birt í Jyllands-Posten árið 2005.

Berlingske skrifar í minningargrein um listamanninn, að Kurt Westergaard hafi orðið tákn tjáningarfrelsis í Danmörku í starfi sínu sem skopmyndateiknari hjá Jyllands-Posten. Ekstra Bladet rifjar upp, að skopmynd hans af Múhameð spámanni hafi orsakað eina stærstu utanríkismálakreppu í sögu Danmerkur.
Westergaard hefur sjálfur lýst sér sem „menningarlega róttækum hálfhippa sem hvetur til friðar, rýmis fyrir alla og góðrar sambúðar.“

Auk þess að skapa kreppu í utanríkismálum, þá gerði teikning Westergaards hann að hatursefni múslima um allan heim. Samkvæmt upplýsingum var verð upp á nokkrar milljónir króna sett honum til höfuðs skrifar blaðið. Hann neyddist fljótlega til að lifa undir stöðugri vernd dönsku öryggis- og leyniþjónustunnar PET.

Ráðist á heimilið

Þann 1. janúar 2010 braust maður af sómölskum ættum inn á heimili Westergaard og réðst á hann með exi og hníf. Westergaard slapp með því að læsa sig inni í baðherberginu, sem yfirvöld höfðu látið breyta í öryggisherbergi.

Lögregla var fljótt á staðnum og skaut árásarmanninn í annan fótinn og handlegginn, þar sem hann réðst einnig lögregluna með vopnum. Maðurinn var dæmdur í tíu ára fangelsi og síðan vísað úr Danmörku til æviloka. Í kjölfar morðtilræðisins fékk Westergaard enn meiri gæslu.
Nokkrum árum síðar var 29 ára maður einnig handtekinn eftir að hafa hótað að sprengja Westergaard.

Westergaard fæddist í Døstrup á Norður-Jótlandi. Áður en hann byrjaði sem teiknari hjá Jyllands-Posten árið 1983 starfaði hann í nokkur ár sem kennari í þýsku og skólaeftirlitsmaður. Westergaard starfaði sem teiknari hjá Jyllands-Posten þar til hann fór á eftirlaun árið 2010.

„Ég vil að mín verði minnst sem manns sem barðist fyrir málfrelsi. En enginn vafi leikur á því, að einhver mun í staðinn muna eftir mér sem sjálfum djöflinum, sem móðgaði trúarbrögð milljarðs manna. “
Kurt Westergaard

Westergaard lést eftir langvarandi veikindi. Hann lætur eftir sig eiginkonu, fimm börn, tíu barnabörn og eitt barnabarnabarn.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla