Músafár á landinu – Skæðar í rafbílum og rafkerfum bíla

Hér má sjá hvar mús hefur gert sér bústað ofan vélarrúmi rafbíls.

Gríðarlegt músafár hefur verið víða um land og segir meindýraeyðirinn Árni Logi Sigurbjörnsson sem starfað hefur sem slíkur frá árinu 1973 á norður og austurlandi ekki muna eftir öðru eins. Arnþrúður Karlsdóttir ræddi við Árna Loga í síðdegisútvarpinu í dag en þar sagði Árni meðal annars hlustendum frá því gífurlega tjóni sem mýs geta valdið.

Árni segir mýsnar afar skæðar í rafbílum og rafkerfum bíla þar sem þær þeysast um stjórnlaust og naga allt sem á tönn festi. Mikil hætta getur skapast af músagangi í bílum og sér í lagi rafbílum þar sem þær geta valdið alvarlegu skammhlaupi nagi þær leiðslur í rafkerfi bílsins og hreinilega valdið íkveikju.

Hann segist hafa séð ótrúleg tilvik þar sem mýs hafi hreiðrað um sig í bílum, nagað sig ofan í sætin og gert sér bústað þar með tilheyrandi óþæginum og tjóni. Verst er þó þegar þær herji á rafkerfið.

Þá séu bílar ungs fólks með börn ofarlega á óskalista músanna því þar sé fólk með börn í barnabílstólum og þegar verið er að gefa börnunum að borða í bílnum vilji eitthvað sullast niður sem mýsnar svo sækja í. Dæmi séu um að mýs hafi étið heilu sætin í bílunum að sögn Árna.

„þá er það oft þannig að þær hafa nagað einhverjar leiðslur og þegar eigandi bílsins ætlar að setja hann í gang þá logi öll ljós í mælaborðinu eins og jólasería og boð koma upp um að bílinn sé bilaður og þurfi á verkstæði og það þýðir oft að það þarf að flytja bílinn með sérstökum flutningabíl á verkstæði og það getur kostað óhemju mikið fyrir utan svo viðgerðina, þetta getur hlaupið á hundruðum þúsunda króna“ segir Árni.

Hann segir tíðarfarið eiga mikinn þátt í því músafári sem nú gangi yfir landið auk þess sem kornrækt hafi aukist mikið og korn sé það besta sem mýs fái og af því leiðir að hún fjölgar sér gríðarlega.

Hann segir að besta leiðin gegn músagangnum sé að fá meindýraeyði til þess að setja upp sérstakt beitubox sem mýsnar sækja mikið í en inni í boxinu er eitur sem þær éta og drepast svo af.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila