Myndband: Kappræður J.D. Vance og Timothy Walz

Í varaforsetakappræðunum sem fram fóru á sjónvarpsstöðinni CBS í nótt áttu Timothy Walz, varaforsetaframbjóðandi demókrata, og J.D. Vance, varaforsetaframbjóðandi repúblikana, orðaskipti um lykilatriði í kosningabaráttunni, þar á meðal, hernaðarstefnu, heilbrigðismál, fjölskyldustefnu og lýðræðismál. Kappræðurnar voru haldnar í aðdraganda forsetakosninganna, þar sem Kamala Harris og Donald Trump berjast um forsetastólinn í Hvíta húsinu.

Kappræðurnar snerust einnig að miklu leyti um lýðræðisleg gildi og kosningaferlið. Timothy Walz gagnrýndi Donald Trump fyrir að hafa ekki viðurkennt ósigur sinn í kosningunum 2020 og benti á að árásin á þinghúsið 6. janúar 2021 hafi verið stórkostlegt brot á lýðræðislegum reglum Bandaríkjanna. Hann sagði að Mike Pence, þáverandi varaforseti, hafi réttilega staðið gegn Trump þegar hann samþykkti úrslit kosninganna. Walz sagði að þetta væri fyrsta skiptið í sögu Bandaríkjanna sem forseti reyndi að hindra friðsamlega valdatöku, og að Bandaríkin þurfi að standa vörð um lýðræðisleg gildi.

Vance svaraði með því að gagnrýna lýðræðisstefnu demókrata og sagði að helsta ógnin við lýðræðið væri ritskoðun. Hann benti á að Kamala Harris hefði ítrekað beitt ritskoðun í tengslum við COVID-19 og önnur málefni. Hann sagðist telja að ritskoðun stjórnvalda og stórtækni væri stærra vandamál en umræðan um kosningasvik. Vance sagði að demókratar hefðu árum saman dregið í efa úrslit kosninga, meðal annars þegar Hillary Clinton sagði að kosningunum 2016 hefðu verið stolið með aðstoð Rússa. Hann sagðist vilja sjá bæði repúblikana og demókrata hafna ritskoðun og standa vörð um málfrelsi.

Sem fyrr segir var rætt um fjölmörg önnur mál en horfa má á kappræðurnar hér að neðan.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila