Myndi láta ráðherra víkja af þingi – Þjóðaratkvæðagreiðsla miðist við 10%

Verði Viktor Traustason forsetaframbjóðandi og hagfræðingur kjörinn forseti Íslands myndi hann láta þá sem vilja verða ráðherrar fá ráðherrastóla gegn því að þeir víki af þingi svo þeir gegni ekki tveimur valdastöðum samtímis. Þá myndi almenningur geta þvingað fram þjóðaratkvæðagreiðslur með undirskriftum tíu prósenta kosningabærra manna án þess að forseti tæki ákvörðun um það að eigin geðþótta. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Viktors í síðdegisútvarpinu í dag en hann var gestur Kristjáns Arnar Elíassonar.

Viktor segir að þegar hann hafi tekið ákvörðun um framboð hafi verið hugmyndin að hífa umræðuna upp á annað plan og bjóða í raun fram stefnumálin umfram þá persónu sem er í framboði.

Menn velji ráðherrastól eða þingmennsku

Hann segir að hugsunin með því að láta ráðherra víkja af þingi sé sú að koma í veg fyrir að fólk sem sitji á Alþingi séu að deila valdastöðum sín á milli því í dag sé það reglan að sá sem sé ráðherra sitji einnig á þingi auk þess sem sá aðili sé oftast einnig formaður eigin flokks. Þarna séu menn að mati Viktors komnir með of mikil völd.

Fólk á að leita meira til forsetans

Hann bendir á að ráðherrar starfi í raun fyrir forseta enda sé honum falið að láta ráðherra framkvæma vald sitt og þegar einhver gremja myndist í samfélaginu vegna einhvers sem ráðherra framkvæmir virðist fólk ekki alveg átta sig á að það ætti að ræða málin við forsetann og fá hann til þess að taka á málinu. Þess í stað bíði fólk eftir að einhver leggi fram vantraust sem ekki eigi sér stað í stjórnarskránni heldur sé einungis tillaga.

Mál í þjóðaratkvæðagreiðslu

Þá ætlar Viktor að nýta málsskotsrétt forseta ef upp komi mál í samfélaginu sem sé umdeilt geti almenningu safnað undirskriftum tíu prósenta kosningabærra manna í landinu og þá muni forseti sjálfkrafa vísa viðkomandi máli til þjóðarinnar til atkvæðagreiðslu.

Týndu þingsætin

Týndu þingsætin eru einnig Viktori hugleikin og á þá Viktor við þau þingsæti sem honum finnist þeir sem skili auðum og ógildum atkvæðaseðlum ættu að hafa og hefur hann ákveðnar hugmyndir um hvernig það fólk gæti einnig haft einhver áhrif með sínum atkvæðum.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila