Nær vonlaust að fá upplýsingar um skýrslur sem yfirvöld vilja ekki að almenningur sjái

Það er nær vonlaust að reyna að nálgast upplýsingar um skýrslur sem yfirvöld vilja ekki að almenningur sjái eða hafi vitneskju um. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar formanns Miðflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra í síðdegisútvarpinu í dag en hann var gestur Péturs Gunnlaugssonar.

Aðspurður um hvað hann telji að tefji birtingu Íslandsbankaskýrslunnar segir Sigmundur að líklega sé ástæðan sú að málið hafi verið umfangsmeira en talið hafi verið í upphafi. Hann segist að öðru leyti hafa litlar upplýsingar um málið en að það sé hans mat að málið sé áminning um að standa hefði með allt öðrum hætti að einkavæðingu bankanna.

Það gafst gullið tækifæri til að endurskipuleggja fjármálakerfið

Hann bendir á að þegar hann fór úr ríkisstjórn á sínum tíma hafi verið búið að koma málum þannig fyrir að ríkið hafi verið nánast með allt fjármálakerfið í fanginu og þá hafi gefist ótrúlega gott tækifæri til þess að laga og endurskipuleggja fjármálakerfið í heild sinni, hans hugmynd hafi meðal annars verið sú að hver lifandi Íslendingur fengi sinn hlut í bönkunum og gæti þá ákveðið hvort hann vildi eiga hlut sinn áfram eða selja. Hins vegar hafi verið tekin alger U beygja, farið var að gefa eftir í viðræðum við kröfuhafa og þar fram eftir götunum.

Hvað skýrsluna um Lindarhvol varðar þá segir Sigmundur að það mál hafi verið lengi í gangi og Þorsteinn Sæmundsson sem sat í forsætisnefnd þingsins fyrir hönd Miðflokksins hafi gert ítrekaðar tilraunir til þess að fá hana birta. Hann segir skýrsluna hafa verið skrifaða upphaflega um hvernig farið var með megnið af þeim eignum sem ríkið tók yfir þegar bankahrunið var gert upp og slitabúin voru látin afhenda eignir að verðmæti líklega um 1000 milljarða króna. Lindarhvoli hafi verið ætlað að koma eignunum í verð og hámarka virði þeirra en svo hafi farið að berast kvartanir frá aðilum sem vildu kaupa eignir af Lindarhvoli en hafi ekki fengið að kaupa þrátt fyrir að hafa boðið hærra verð heldur en aðrir hefðu boðið.

Fer skýrslan um Lindarhvol í 110 ára kassann?

Sigmundur segir að í kjölfarið hafi verið ákveðið að kafa ofan í málið og skýrslan hafi átt að varpa ljósi á hvað var þarna á ferðinni en skýrslan fáist ekki birt því bæði Ríkisendurskoðun og Lindarhvoll vilja ekki að hún komi fyrir almenningssjónir og þá neitar Birgir Ármannsson forseti Alþingis að afhenda skýrsluna. Erfitt sé að áætla hvað í henni standi fyrr en hún fáist birt en Sigmundur segir að hann hafi heyrt að í henni komi fram nokkuð hörð gagnrýni. Hann veltir því fyrir sér hvort skýrslan muni enda í kassanum sem 110 ára leynd hvílir yfir þar sem einnig er að finna gögn frá embættistíð Jóhönnu og Steingríms og þau kusu að leyna fyrir þjóðinni.

Ekki staðið við skilyrði til kaupa á eignum á góðu verði

Skýrslan um Íbúðalánasjóð virðist einnig afar óþægileg til birtingar, eða að minnsta kosti hluti af henni þar sem ekki hafa fengist upplýsingar um hvað varð um 2000 íbúðir sem Íbúðalánasjóður tók yfir. Sigmundur segir ferlið hafa ekki verið ósvipað og með skýrsluna um Lindarhvol en þó hafi brot af upplýsingum fengist úr skýrlunni, nánar tiltekið yfirlit yfir hluta þeirra eigna sem sjóðurinn tók yfir og seldi frá sér á undirverði. Sigmundur segir að talað hefði verið um á sínum tíma að hægt yrði að kaupa þessar eignir á góðu verði gegn skilyrðum um að þær færu í útleigu á þann hátt að ekki yrði hagnast á þeim en nú sé óljóst hvort staðið hafi verið við það í öllum tilvikum.

Þegar öllu er á botninn hvolft er mjög erfitt að nálgast upplýsingar úr skýrslum sem varða hagsmuni almennings eins og rakið hefur verið hér að ofan og gagnsæi í vinnubrögðum yfirvalda er nær ekkert og enn bólar ekkert á skýrslunni um Íslandsbankamálið og heldur ekki um Lindarhvol.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila