Niðurstöður netkosninga til forseta Íslands: Halla Tómasdóttir hefði unnið í öllum kosningakerfum

Netkosningar til forseta Íslands voru haldnar dagana 27. maí til 1. júní síðastliðinn, þar sem almenningi var boðið að kjósa til forseta eftir ólíkum kosningakerfum og fræðast um þau kerfi á vefsíðunni https://forseti2024.politicaldata.org/ og nú liggja niðurstöður netkosninganna fyrir.

Alls bárust 2,877 atkvæði (svör) í netkosningunni og dreifing á fylgi frambjóðenda í úrtakinu var mjög svipuð því sem kannanir með handahófsúrtaki sýndu á sama tíma. Eins og lagt var upp með vigtuðum við svör samt sem áður til að endurspegla niðurstöður forsetakosninganna, en það hafði lítil áhrif á neðangreind úrslit. Eftir sem áður er þetta úrtak sjálfvalið og því t.d. mun hærra hlutfall svarenda með háskólamenntun heldur en meðal íslenskra kjósenda í heild. Því ber að taka neðangreindum niðurstöðum með þeim fyrirvara.

Í netkosningunni gátu svarendur kosið sér forseta bæði með núverandi kosningakerfi og með öðrum kosningakerfum: raðvali með varaatkvæði (e. Alternative Vote), raðvali með Borda talningu (e. Borda count) og samþykktarkosningu (e. Approval Voting). Sömuleiðis spurðum við svarendur sérstaklega í upphafi hvaða frambjóðanda þeir vildu helst sjá sem forseta, óháð því hvernig þeir ætluðu að kjósa.

Niðurstöðurnar voru þær að 18,4% svarenda sögðust ætla að kjósa „taktískt“ í kosningunum í núverandi kerfi; þ.e., að kjósa annan frambjóðanda en þeir sögðust helst vilja sjá sem forseta. Af efstu sex frambjóðendunum í kosningunum gilti þetta mest um þau sem sögðust helst vilja sjá Baldur Þórhallsson sem forseta: 37,8% sem sögðu það sögðust ætla að kjósa annan frambjóðanda. Skammt á eftir komu þau sem helst vildu Jón Gnarr (35,4%) og þau sem helst vildu Arnar Þór Jónsson (32,2%) en hlutfallið var mun lægra fyrir þau sem vildu helst einhvern af efstu þremur frambjóðendunum.

Af þeim sem vildu helst Baldur Þórhallsson sem forseta sögðust 18,7% ætla að kjósa Höllu Tómasdóttur, 9,3% Höllu Hrund Logadóttur og um 5,9% Katrínu Jakobsdóttur. Af þeim sem vildu Jón helst sögðust 18,1% ætla að kjósa Höllu Tómasdóttur, 7,6% Höllu Hrund og 5,9% Katrínu Jakobsdóttur. Þessi tilhneiging til taktískra kosninga virðist hafa aukist eftir því sem leið á vikuna fram að kosningum: af þeim 1741 sem svöruðu könnuninni mánudaginn 27. maí sögðust 14,4% ætla að kjósa taktískt en af þeim 579 sem svöruðu könnuninni föstudaginn 31. maí sögðust 26,5% ætla að gera það. Þetta var sérstaklega áberandi meðal þeirra sem vildu helst Höllu Hrund: á mánudeginum sögðust 4,1% þeirra ætla að kjósa annan frambjóðanda en á föstudeginum var það hlutfall komið upp í 15%. Af þessum hópi sögðust í heild um 5,3% ætla að kjósa Höllu Tómasdóttur en mjög lítill hluti aðra frambjóðendur.

Samkvæmt netkosningunni græddi Halla Tómasdóttir verulega á þessari taktísku kosningu: um 26,7% svarenda (þegar gögnin eru vigtuð til að endurspegla úrslit kosninganna, eins og í öðrum niðurstöðum) sögðust helst vilja sjá hana sem forseta, eða um 8 prósentustigum færri en sögðust hafa kosið hana. Hins vegar var þetta hlutfall hæst allra frambjóðenda: næst kom Katrín Jakobsdóttir með 23,2%, sem bendir til þess að Halla hefði sigrað kosningarnar með um 3,5 prósentustigum ef enginn hefði kosið taktískt.

Niðurstöðurnar sýna líka að Halla Tómasdóttir hefði að líkindum sigrað kosningarnar í öllum kosningakerfum: í raðvali með varaatkvæði, þar sem atkvæðum er endurúthlutað til frambjóðenda sem settir eru næst í forgang hjá kjósendum þangað til einn frambjóðandi er kominn með meirihluta atkvæða, hefði Jón Gnarr verið útilokaður síðastur (með 25,1% atkvæða á þeim tímapunkti á móti 28,9% Katrínar Jakobsdóttur) og Halla Tómasdóttir sigrað Katrínu Jakobsdóttur í lokaumferðinni með 63,6% atkvæða gegn 36,4%.

Sé forgangsröðun svarenda í þessu kerfi notuð til að álykta hvaða frambjóðanda þeir hefðu kosið í mögulegu „einvígi“ tveggja frambjóðenda í seinni umferð (út frá því hvorum frambjóðandanum þeir röðuðu ofar) kemur í ljós að Halla Tómasdóttir hefði sömuleiðis sigrað alla aðra frambjóðendur í seinni umferð. Næst því að sigra hana þar kemst Baldur Þórhallsson með 38,9% atkvæða. Hins vegar hefði Baldur, miðað við þessar niðurstöður, sigrað Katrínu Jakobsdóttur í slíku einvígi, með um 52,6% atkvæða, sem og Höllu Hrund Logadóttur (með 58,4% atkvæða) og Jón Gnarr (með um 57,6% atkvæða). Katrín Jakobsdóttir hefði hins vegar naumlega sigrað Höllu Hrund (með 51,4%) og Jón Gnarr (með 50,9%), en síðarnefndi munurinn er ekki tölfræðilega marktækur.

Ofangreint endurspeglast sömuleiðis í því að Baldur Þórhallsson hefði verið í öðru sæti í raðvali með Borda talningu (þar sem hvert sæti veitti frambjóðendum ákveðið mörg stig), með 16725 stig (um 15,1% af öllum gefnum stigum) gegn 19483 stigum Höllu Tómasdóttur (um 17,6%) en næst hefðu komið Jón Gnarr og Halla Hrund, með 14998 og 14400 stig. Katrín Jakobsdóttir hefði fengið 13708 stig í slíkri kosningu, miðað við vigtaðar niðurstöður þessarar netkosningar.

Þá hefðu 61,3% kjósenda veitt Höllu Tómasdóttur atkvæði sitt í samþykktarkosningu (þar sem svarendur gátu merkt við eins marga frambjóðendur og þeim sýndist) og 52,1% Baldri Þórhallssyni, en aðrir frambjóðendur nutu stuðnings minnihluta kjósenda í þeirri kosningu (Katrín Jakobsdóttir kom næst með 44,3% og Halla Hrund með 44,1%).

Í raðvali með varaatkvæði röðuðu 8,6% svarenda öðrum frambjóðanda en þeir vildu helst í 1. sætið, samanborið við 18,4% sem kusu annan frambjóðanda en þau vildu helst í núverandi kerfi. Í raðvali með Borda talningu var þetta hlutfall 9,4%, sem bendir til þess að í kosningakerfi með raðvali gæti taktísk kosningahegðun verið um helmingi minni en í núverandi kerfi. Athygli okkar vakti að enginn svarendur sem höfðu lokið háskólamenntun og svarendur sem höfðu ekki lokið slíkri menntun virtust kjósa taktískt í jafnríkum mæli.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila