
Tónlistarmaðurinn Friðrik Ómar Hjörleifsson sem er Íslendingum að góðu kunnur var gestur Rúnars Þórs í þættinum Slappaðu af í dag þar sem þeir félagar ræddu feril Friðriks sem má með sanni segja að sé mjög fjölbreyttur.
Friðrik hefur meðal annars tekið þátt í Eurovision en það gerði hann árið árið 2008 ásamt Regínu Ósk árið 2008 og fluttu þau lagið This is my life en það má geta þess að Friðrik og Regína urðu fyrst Íslendinga til að komast upp úr undankeppninni frá því að slíkt keppnisfyrirkomulag var tekið upp árið 2004.
Þá hefur Friðrik fjórum sinnum tekið þátt í forkeppninni árin 2006, 2007, 2008 og 2019.
Í þættinum í dag sagði Friðrik Ómar frá því að nú sé hann að bíða eftir því að plata sem hann hefur verið að vinna að undanfarin misseri verði tilbúin til útgáfu.
„ég bíð bara spenntur, en þetta er svolítið svona eins og þú veist að manni hlakkar til að leyfa öllum að heyra en á sama tíma mjög stressaður yfir því“.
Hann segir plötuna vera sjálfstætt framhald plötu sem hann gaf út árið 2013 og hét Kveðja en platan sú innihélt sálma og saknaðarsöngva.
„sú plata hefur gert það að verkum að ég er mikið að syngja við útfarir og það eru eitt mest gefandi verkefni sem ég tek að mér, það er bæði afskaplega gott og mikill heiður og það er mjög mikil slökun fyrir mig“segir Friðrik Ómar.
Hann segir plötuna nú vera tökulagaplötu með bæði Íslenskum og nokkrum erlendum lögum. Þar megi finna lög eftir Magga Eiríks, Magga Kjartans, Björgvin Halldórsson og marga fleiri.
Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan.