Nýjar upplýsingar í Íslandsbankamálinu staðfesta vandkvæði í söluferlinu

Þær nýju upplýsingar sem fram hafa komið um að Fjármálaeftirlitið telji Íslandsbanka hafa mögulega brotið gegn lögum við framkvæmd bankans á útboði Bankasýslunnar á bréfum í bankanum sjálfum staðfesta í raun það sem fyrst kom fram í málinu um möguleg vandkvæði í söluferlinu. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Björns Leví Gunnarssonar þingmanns Pírata í síðdegisútvarpinu í dag en hann var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur.

Björn segir að ef þær upplýsingar sem komið hafi fram reynist vera réttar eigi aðeins eftir að skoða stöðu ráðherra í málinu. Þar séu hins vegar ákveðnar hindranir í veginum sem eru þær að það geri engin nema þingið og þar standi meirihluti þingsins fast í vegi fyrir því að það sé tekið fyrir.

„þetta er svona klassísk leið til þess að drepa málinu á dreif því um leið og það er búið að benda á einn sökudólg og lögbrotið að þá afsaki það einhvern vegin allt annað sem er að líka, það er þessi aðferðarfræði að einblína á einn sökudólg þegar hið sanna er að það geta verið fleiri sökudólgar er það sem manni grunaði að reynt yrði að gera“

Þannig hafi Bankasýslunni verið hent undir rútuna hjá Ríkisendurskoðun og núna söluaðilar hjá Íslandsbanka og þá er Bankasýslan allt í einu orðin gleymd og hún lögð niður og ekkert meira gerist þar.

„þar fara menn væntanlega bara í önnur þægileg innistörf í kjölfarið og þurfa ekki að taka neinum afleiðingum og taka enga ábyrgð“ segir Björn.

Hlusta má á þáttinn hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila