Nýtt hjúkrunarheimili á Seltjarnarnesi formlega afhent

Frá formlegri afhendingu hjúkrunarheimilisins.

Nýtt hjúkrunarheimili á Seltjarnarnesi var í gær formlega afhent rekstraraðilum þess við hátíðlega athöfn. Það er rekstrarfélagið Vigdísarholt sem annast mun reksturinn en félagið sem er hlutafélag er í eigu ríkisins, en félagið rekur einnig hjúkrunarheimilið Sunnuhlíð í Kópavogi. Gert er ráð fyrir að fyrstu íbúar nýja hjúkrunarheimilisins muni flytja inn þann 20.mars næstkomandi. Mikið var um dýrðir þegar afhending heimilisins og vígsla þess fór fram að viðstöddu fjölmenni. Gestum gafst kostur á að skoða húsið sem stendur við Safnatröð, vestast á Seltjarnarnesi í nábýli við Nesstofu. Húsið er á einni hæð og skiptist í fjórar heimilislegar einingar sem hver um sig er með hjúkrunaríbúðum fyrir tíu einstaklinga. Í húsinu er sameiginlegur miðlægur þjónustukjarni og þar er gert ráð fyrir að verði rekin 25 dagdvalarrými, til viðbótar hjúkrunarrýmunum fjörutíu.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila