Helga Möller í sveitarstjórnarpólitíkinni og heilsubransanum

Helga Möller og Sigrún Kjartansdóttir.

Það er stutt í eineltið þegar kemur að pólitík og það fer allt of mikill tími í það að rífast um mál sem ekki þyrfti að rífast um. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Helgu Möller söngkonu sem nú hefur snúið sér að pólitíkinni í heimabæ sínum Mosfellsbæ en hún var gestur Sigrúnar Kjartansdóttur í þættinum Heilsan heim í dag.

Helga segir að hún hafi allt frá því að hún var barn haft afar sterka réttlætiskennd og hafi fyrir skömmu verið minnt það með skemmtilegum hætti. Kona sem hún hitti í verslun sagðist bera kveðju bróður hennar til Helgu því hann minntist hennar með mikilli hlýju því Helga hafi þegar hann var barn staðið uppi í hárinu á krökkum sem lögðu hann í einelti og sagt þeim til syndanna.

Helga segist muna vel eftir þessu og þegar hún líti til baka sé hún afar stolt af því að hafa gripið inn í þessar aðstæður því einelti fylgi fólki oft langt fram á fullorðinsár og getur markað líf þess til frambúðar. Hún segir að þegar dóttir hennar hafði lent í einelti sem barn hafi hún með sína reynslu geta leiðbeint henni og aðstoðað. Hún segir að fólk mætti gjarnan fylgjast betur með því sem börnin þeirra eru að aðhafast því oft sé hægt að sjá merki þess sé eitthvað slíkt í gangi.

Þá segir Helga sem eins og fyrr segir sinnir pólitíkinni í sínum heimabæ og situr meðal annars í nefndum fyrir Sjálfstæðisflokkinn að það sé oft stutt í eineltið í pólitíkinni og að hennar mati sé of mikill fókus á togstreitu milli manna og flokka og mikið rifrildi oft á tíðum, það minni hana oft á einelti. Hún segir að hún vildi óska þess að fólk gæti unnið meira saman að góðum verkum óháð flokkum því það sé fullt af góðu fólki í öllum flokkum og það sé mikið af stjórnmálafólki sem henni lítist mjög vel á og er oft sammála þó það sé ekki í sama flokki.

„ég vona að einn daginn að þá munum við sjá þetta í svolítið öðru ljósi og getum farið að kjósa fólk en ekki flokka, það er fyrirkomulag sem mér líst mjög vel á“ segir Helga.

Nýlega ákvað Helga einnig að láta að sér kveða í heilsubransanum og ætlar hún ásamt tveim félögum sínum, þeim Auðunni Georg Ólafssyni og Skúla Guðmundssyni að bjóða fólki upp á sérstakar heilsuferðir til Póllands. Helga segist sjálf hafa farið í slíkar ferðir og sækja í þær vegna þess að hún viti að það sé gott fyrir hana og með því geti hún núllstillt sig.

Hún segir þessa meðferð mest byggja á hollu matarræði, hreyfingu og hvíld og hafa góð áhrif á innri líffæri, húðina og margt fleira. Hún segir ferlið mjög hreinsandi og á aðeins hálfum mánuði kemur maður heim eins og ný manneskja. Hún segir að vinir og kunningjar sjái að heilsan sé betri og velta fyrir sér hvernig hún hafi fengið þennan fríska blæ og spyrji mikið um það.

Hún segir ferðirnar vera tilvaldar til dæmis fyrir þá sem finnast þeir vera að brenna út, þetta sé mikil slökun og fólk finni svolítið sjálft sig. Á staðnum eru læknar og hjúkrunarfræðingar sem fylgjast með ferlinu og gefa góð ráð.

Fyrir áhugasama geta þeir fræðst nánar um ferðirnar með því að smella hér.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila