Ofbeldi barna og ungmenna mikið áhyggjuefni

Það ofbeldi sem hefur vaxið gríðarlega í samfélaginu, hnífaburður barna og ungmenna og annað ofbeldi er gríðarlegt áhyggjuefni fyrir samfélagið, því er nauðsynlegt að nálgast málin frá öllum vígstöðvum. Þetta segir Guðmundur Árni Stefánsson bæjarfulltrúi í Hafnarfirði og varaformaður Samfylkingarinnar en hann var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur í Síðdegisútvarpinu sem hlusta má á í spilaranum hér að neðan.

Skólarnir þurfa að koma að málum

Hann segir að í ljósi þess að hér sé hnífaburður orðinn algengur meðal 14 til 15 ára og jafnvel yngri barna sé ljóst að skólinn þurfi meðal annars að koma að málum. Það sé alveg ljóst að þegar börn finna sig knúin til þess að vera með hnífa í vasanum þegar þau fara niður í bæ að skemmta sér þá sé eitthvað mikið að.

Engir venjulegir hnífar sem eru í umferð

Veltir Guðmundur Árni þeirri spurningu upp hvort herða þurfi lagaumgjörðina þegar kemur að vopnum sem deyða, skotvopnum, hnífum, bareflum og þess háttar. Vekur Guðmundur Árni athygli á að þeir hnífar sem um ræðir séu engir venjulegir vasahnífar, heldur sé um að ræða hnífa í stærri kantinum.

Hér hefur hreiðrað um sig ómenning

Það sé ljóst að hér hafi hreiðrað um sig einhver ómenning og segir Guðmundur Árni sem einnig er fyrrum lögreglumaður að hann hafi mikla samúð með lögreglumönnum sem þurfi að vinna sína vinnu við þessar kringumstæður. Lögregla verði auðvitað að hafa þau tól og tæki sem þurfi til þess að takast á við þetta.

Nauðsynlegt að taka löggæslumálin föstum tökum

Hins vegar sé lögreglan því miður mjög fáliðuð og hefur þar orðið fækkun miðað við aukinn fólksfjölda. Hann segir Samfylkinguna vilja taka löggæslumálin föstum tökum. Almenningur þurfi að vera öruggur á götum úti eins og nokkur kostur er og því þurfi að vera hér öflug löggæsla.

Hlusta má á ítarlegri umfjöllun í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila