Öfgar í umræðunni um kynferðisbrot getur komið niður á réttlætinu og hreinlega valdið mjög miklum skaða fyrir alla þá aðila sem tengjast slíkum málum. Þetta segir Sævar Þór Jónsson hæstaréttarlögmaður í viðtali við Arnþrúði Karlsdóttur í Síðdegisútvarpinu sem hlusta má á í spilaranum hér að neðan.
Nauðsynlegt að vekja athygli á kynferðisbrotum en öll öfgaumræða veldur skaða
Metoo-hreyfingin hefur haft mikil áhrif á umræðu um kynferðisbrot og framkomu kynjanna í samfélaginu. Sævar Þór Jónsson hæstaréttarlögmaður bendir á að þrátt fyrir að þessi hreyfing hafi verið nauðsynleg og haft jákvæð áhrif á að vekja athygli á kynferðisbrotum þá hafi einnig komið upp ákveðnar öfgar í umræðunni sem hafa valdið skaða. Hann segir að það sé mikilvægt að bregðast við kynferðisbrotum og verja þolendur en bendir á að öfgakennd nálgun geti komið niður á réttlæti og sanngirni fyrir alla aðila.
Frásagnir stundum byggðar á sögusögnum sem eru alrangar
Sævar Þór tekur fram að samfélagið hafi verið þvingað inn í mikla umræðu um kynferðisbrot og rétt þolenda sem sé gott og þörf þróun. Hins vegar hafi umræðan á köflum þróast á þann hátt að fólk sé dæmt opinberlega án þess að réttlætisferli hafi átt sér stað. Hann lýsir því hvernig ásakanir sem koma fram í kjölfar metoo eru stundum byggðar á óstaðfestum frásögnum á samfélagsmiðlum eða í fjölmiðlum sem hafa leitt til þess að fólk er útilokað úr samfélaginu og atvinnulífi án rannsóknar.
Varar við múgæsingu þar sem hópar sameinast og fara að refsa á netinu
Sævar Þór varar við því að samfélagið fari í „múgæsingu“ þar sem hópar einstaklinga sameinast um að fordæma og refsa án þess að málin séu rannsökuð með réttmætum hætti. Hann bendir á að það sé mikilvægur hluti af réttarkerfinu að rannsaka mál af yfirvegun og málefnalegri nálgun áður en ákvarðanir eru teknar. Öfgakennd viðbrögð stuðli aðeins að því að fólk missi trú á kerfinu og skaði bæði saklausa einstaklinga og málstað þeirra sem þurfa vernd.
Öfgar í umræðunni geta stór skaðað alvarleg kynferðisbrotamál
Sævar Þór segir að það hjálpi engum þegar mál eru tekin úr samhengi eða notuð til að nýðast á einstaklingum. Það geti haft þær afleiðingar að raunveruleg kynferðisbrot fái ekki þann hljómgrunn sem þau þurfa vegna vantrausts sem skapast þegar fólk sér öfgar í meðhöndlun slíkra mála.
Sævar hvetur til þess að umræðan haldist á málefnalegum grunni og að farið sé eftir réttarkerfinu í meðhöndlun kynferðisbrotamála. Öfgarnar, að hans mati, séu að skaða bæði málstað þolenda og samfélagið í heild sinni, og það sé mikilvægt að skapa umhverfi þar sem sanngirni og réttlæti sé í fyrirrúmi.
Hlusta má á ítarlegri umfjöllun í spilaranum hér að neðan