Ráðherrar Vinstri grænna, fyrst Svandís Svavarsdóttir sem bannaði hvalveiðar með dags fyrirvara í fyrra og nú Bjarkey Olsen sem tafði afhendingu veiðileyfis til Hvals hf hafa með framkomu sinni verið að leika sér að atvinnumöguleikum fólks og rétti Hvals hf til veiða. Þetta var meðal þess sem fram kom í þætti Arnþrúðar Karlsdóttur og Péturs Gunnlaugssonar í dag.
Pétur sagði að um væri að ræða pólitískar geðþóttaákvarðanir, þrýsting sem kæmi frá erlendum umhverfissamtökum og dýravinum þar og niðurstaðan sé sú að látið sé undan þrýtingnum. Hvalveiðar ekki leyfðar og síðan teygt á veitingu leyfis sem veldur því að ekki er hægt að veiða hvali. Þjóðin fær að borga brúsann af þeim skaðabótum sem væntanlega þurfi að greiða vegna þessara pólitísku geðþóttaákvarðana.
Ráðherrar í ríkisstjórn ekki látnir bera ábyrgð
Þá sé það lenska að ráðherrar þurfi ekki að bera ábyrgð vegna þeirra ákvarðana sem þeir taki, jafnvel þó þær séu lögbrot eins og í máli Svandísar Svavarsdóttur sem einfaldlega færði sig yfir í annað ráðuneyti.
Pólitískur yfirgangur
Arnþrúður benti á að í máli Svandísar hafi verið um að ræða fólskulegan pólitískan yfirgang því Hvalur hf hefði ekki haft ástæðu til að ætla að veiðarnar yrðu stöðvaðar. Það hafi staðið til að halda til veiða allt þar til daginn áður en veiðarnar áttu að hefjast þegar Svandís hafi ákveðið að setja á þær bann. Þetta hafi verið látið viðgangast og Svandís fór svo bara yfir í næsta ráðuneyti, situr þar sem fastast í valdamiklu ráðuneyti.
Slæm fyrirmynd af ríkisstjórninni
Arnþrúður segir það vera mjög alvarlegt mál að þetta sé sú fyrirmynd sem fólk fái af ríkisstjórninni bæði hjá Katrínu Jakobsdóttur fyrrum forsætisráðherra sem sat sem Matvælaráðherra í veikindaleyfi Svandísar Svavarsdóttur. Því það virðist sem Katrín sé á sömu nótum hvað hvalveiðarnar varðar því hún sjálf hefði átt að veita Hval hf veiðileyfið en gerði ekki. Segir Arnþrúður að þetta sé vítaverð hegðun þeirra ráðherra sem um ræðir og blasi við öllum almenningi í landinu.
Hlusta má á nánari umfjöllun í spilaranum hér að neðan