Páll Vilhjálmsson sýknaður í Landsrétti

Páll Vilhjálmsson kennari, blaðamaður og bloggari var í dag sýknaður í Landsrétti í ærumeiðingarmáli sem blaðamennirnir Þórður Snær Júlíusson og Arnar Þór Ingólfsson höfðuðu gegn honum vegna skrifa Páls um byrlunarmálið.

Páll hafði skrifað um mál Páls Steingrímssonar skipstjóra sem byrlað var ólyfjan út í drykk á Akureyri sem komst að því að á meðan hann lá milli heims og helju á spítala höfðu gögn úr síma hans verið afrituð. Gögnin rötuðu svo í umfjöllun Stundarinnar og fleiri miðla og voru kveikjan að umfjöllun um það sem kallað var skæruliðadeild Samherja. Páll Vilhjálmsson hafði skrifað mikið um málið og meðal annars sneru skrifin að lögreglurannsókn lögreglunnar á Akureyri á hendur blaðamönnnunum sem um ræðir og mögulegan þátt þeirra í því að Páli skipstjóra hefði verið byrlað.

Páll Vilhjálmsson var dæmdur í Héraðsdómi en áfrýjaði til Landsréttar og þar sem fyrr segir var Páll sýknaður í dag.

Fram kemur í dómnum að þótt ummælin sem Páli Vilhjálmssyni hafi verið stefnt fyrir væru vissulega beinskeytt og óvægin, yrði að líta til þeirrar staðreyndar að stefndu höfðu stöðu sakborninga og sættu,þegar ummælin féllu, rannsókn lögreglu vegna mögulegrar aðildar, beinnar eða óbeinnar, að brotum á ákvæðum hegningarlaga. Þá var upplýst í málflutningi fyrir Landsrétti að sakamálarannsókn á grundvelli kæru Páls Steingrímssonar væri ekki lokið. Fyrir liggja upplýsingar um að hún beinist almennt séð einnig að grun um líkamsárás, en á meðan rannsókninni er ekki formlega lokið verður engu slegið föstu um hverjar niðurstöður hennar verða á endanum.

Þá var vikið að því fyrir dómi að blaðamenn þurfi að vera undir það búnir að þola óþægilega og hvassa gagnrýni og aðfinnslur við störf sín.

Lesa má dóminn með því að smella hér

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila