Patrik og Herbert kynna nýtt lag á Útvarpi Sögu

Þegar tónlistarmenn vinna að lögum sínum þá er það oft þannig að þegar kemur að erfiðum stundun, sambandsslitum eða sorg og erfiðleikum af einhverju tagi verður sköpunin oft virkari. Gleðistundir hafi líka sín áhrif og hvatningu til að búa til tónlist og semja texta. Þetta segja þeir félagar Herbert Guðmundsson og Patrik Atlason en þeir voru gestir í þætti Arnþrúðar Karlsdóttur.

Ástin og konur vinsælt yrkisefni

Herbert segir að þegar vandamál komi upp hjá fólki geti það oft verið eldiviður framfara og það sé einmitt þannig sem lög verða oft til þegar tónlistarmenn hugsa til erfiðra atvika sem upp koma í lífi þeirra eða jafnvel annara. Þó má ekki heldur gleyma því að gleðistundir verða einnig oft kveikjan að einhverri sköpun. Ástin og konur sé vinsælt yrkisefni.

Hittust fyrir tilviljun

Það var þó ekki gleði eða sorg sem urðu beint til þess að Herbert og Patrik ásamt Bjarka Ómarssyni ákváðu að gefa út lag saman heldur í raun tilviljunin ein því Herbert stakk upp á því á tónleikum þar sem hann hitti Patrik að þeir myndu semja lag saman og því hafði Patrik samband við Bjarka sem er eldklár pródúsent og sló Bjarki að sjálfsögðu til. Herbert Guðmundsson er löngu landsþekktur og dáður tónlistarmaður sem lengst af hefur verið þekktastur fyrir lagið Can´t Walk away sem kom út árið 1985 og má gjarnan heyra það lag ennþá í spilun á útvarpsstövum.

Lagið Annan hring verður til

Úr samstarfi þeirra félaga varð lagið sem nefnist Annan hring til og hafa þeir gefið lagið út á Spotify en lagið segja þeir að sé í raun svar við laginu Svaraðu sem Herbert samdi á sínum tíma og sló í gegn. Herbert segir að lagið Svaraðu sé í raun nokkurs konar bæn til almættisins og í því lagi sé hann að biðja almættið að svara sínum bænum.

Patrik sló í gegn með laginu Skína

Patrik kom eins og þruma inn í tónlistarlífið fyrir ári síðan eða í júlí 2023 með lagið Skína sem heldur betur sló í gegn með þeim félögum Patrik og Luigi eða Loga Tómassyni. Lagið nýtur mikilla vinsælda ennþá og er í spilun á ýmsum útvarpsstöðvum í landinu. Lagið Skína hefur fengið 2,4 milljón spilanir á Spotify sem er einstakt. Þeir Patrik og Luigi hlutu íslensku tónlistarverðlauin í fyrir lagið Skína sem var valið lag ársins.

Patrik einn allra vinsælasti tónlistarmaður landsins í dag

Patrik lék lengi knattspyrnu með Víkingi ásamt Luigi, Loga Tómassyni sem hafi valið knattspyrnuna fram yfir tónlistina og sé nú atvinnu knattspyrnumaður í Noregi. Patrik starfaði í fjölskyldufyrirtækinu Góu – Lindu sælgætisgerð og segir að afi sinn, Helgi Vilhjálmsson hafi hvatt hann til að snúa sér alfarið að tónlistinni og hann sé ánægður með þá ákvörðun. Patrik er einn allra vinsælasti tónlistarmaður landsins í dag og hefur verið iðinn við að gefa út lög með ýmsum góðum tónlistarmönnum.

Útvarp Saga óskar þeim félögum Patrik og Herbert til hamingju með lagið Annan hring og sendir þeim bjartar framtíðarkveðjur.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan og heyra þar nýja lag þeirra Herberts, Patriks og Bjarka auk fleiri laga með þeim.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila