Sextán ára piltur var í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald til 26. september á grundvelli almannahagsmuna að kröfu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í þágu rannsóknar hennar á alvarlegri líkamsárás í miðborginni um síðustu helgi.
Hann er grunaður um að hafa stungið þrjú ungmenni, tvær stúlkur og einn pilt, með hnífi, en önnur stúlknanna slasaðist mjög alvarlega og er enn í lífshættu. Pilturinn var nýlega færður úr úrræði barnaverndaryfirvalda að Stuðlum yfir í fangelsið á Hólmsheiði til þess að tryggja öryggi hans.
Rannsókn málsins miðar vel.