Píratar hugmyndum ríkisstjórnarinnar um frelsissviptingu fólks á flótta

Píratar hafna alfarið hugmyndum ríkisstjórnarinnar um frelsissvipingu fólks á flótta. Þetta er meðal þess sem fram kemur í ályktun opins nýliðafundar Pírata sem haldinn var á þriðjudagskvöld.

Fundagestir höfnuðu samhljóða og fordæmdu hugmyndir um að fólk sem hér vill búa séu byrðar á innviði og samfélag. Þvert á móti sé það skoðun Pírata að fjölmenningin sé fjársjóður enda styrki ólíkur uppruni samfélagið í heild. Ríkisstjórnir sem svelta innviði séu hinar raunverulegu byrðar en ekki fólk sem hér kemur.

Ályktun fundarins var svohljóðandi:

Mannréttindi eru hornsteinn í hugmyndafræði Pírata. Nú skiptir öllu máli að standa vörð um þau þegar orðræðan breytist og sífellt færri flokkar taka sér stöðu með þeim.

Fjölmenning er fjársjóður. Ólíkur uppruni okkar auðgar heildina. Nýstárlegar hugmyndir kvikna ekki úr einsleitni, heldur úr samtali og samvinnu fjölbreyttra einstaklinga. Setja þarf nýjan tón í málefnum fólks á flótta á Íslandi. Í stað hindrana, tortryggni og andúðar þarf nálgun sem byggir á mannúð, virðingu og einlægum vilja til að vinna með fólki sem sest hér að.

Við viljum að þau sem hingað koma upplifi sig sem hluta af sanngjörnu lýðræðissamfélagi sem tekur vel á móti þeim og gerir þeim kleift að verða virkir þátttakendur sem tilheyra samfélaginu.

Píratar fordæma þá orðræðu að fólk sé byrði á samfélaginu. Nauðsynlegir innviðir landsins hafa verið fjársveltir áratugum saman á vakt undanfarinna ríkisstjórna óháð komu fólks á flótta.

Píratar hafna fyrirhuguðum lagabreytingum sem torvelda inngildingu og fela í sér aðför að fjölskyldusameiningum og öðrum réttindum flóttafólks. Píratar hafna alfarið hugmyndum ríkisstjórnarinnar um frelsissviptingu fólks á flótta í formi svokallaðra lokaðra búsetuúrræða.

Mannréttindi eru hornsteinn lýðræðissamfélags. Tryggja þarf öllum íbúum mannréttindi óháð uppruna.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila