Pólitískt bandalag Evrópuríkja notað til þess að fara framhjá stjórnarskránni

Í þættinum Fréttir vikunnar í dag ræddu Arnþrúður Karlsdóttir og Pétur Gunnlaugsson meðal annars um Þátttöku Íslands í pólitísku bandalagi Evrópuríkja (EPC) sem nú fundar í Moldóvu en þar situr Katrín Jakobsdóttir sem fulltrúi Íslands.

Arnþrúður segir að lítið hafi farið fyrir því að almenningi hafi verið sagt frá því að Ísland væri í þessu pólitíska bandalagi sem í sitja 47 þjóðríki í Evrópu. Ísland gerðist aðili í október 2022. Í loftinu hafi legið í nokkurn tíma sú stefna að breyta ætti Evrópusambandinu þar sem það sé fyrst og fremst viðskipta og markaðsbandalag en ekki pólitískt bandalag.

„ein af þeim skyldum sem við höfðum var að virða og innleiða í íslenskan landsrétt voru samkeppnisreglur ESB og mér finnst hafa verið gert lítið úr því“ segir Arnþrúður

Pétur segir að verið sé að vanvirða upphaflegan tilgang ESB, meiri áhersla sé lögð á samruna, hernaðarstyrk, búa til ríkjasamband með einni ákveðinni stefnu fyrir alla í utanríkismálum og á sama tíma sé verið að vanrækja reglur um samkeppni til dæmis hvað varðar fjölmiðla á Íslandi.

Þá bendir Arnþrúður á að það sé ákveðin tilhneiging til þess að skapa fákeppni á markaði, eyða litlu fyrirtækjunum fyrir þau stóru, þetta sé það sem hafi verið að gerast.

„menn sjá það líka jafnframt að það hefur strandað á Íslandi og Noregi að standa að innleiðingu þar sem það gengur beinlínis gegn okkar stjórnarskrá, en þarna með pólitísku bandalagi Evrópuríkja er verið að búa til ákveðna útgönguleið sem fer framhjá stjórnarskránni, við erum ekki ennþá búin að sjá hverjar leikreglurnar eru en stjórnarskráin okkar er allavega til staðar óhreyfð“segir Arnþrúður.

Pétur segir að með þessu sé verið í raun að skaða stjórnarskrána.

„það er verið að skaða okkar stjórnarskrá með þessari framkvæmd eins og hún hefur átt sér stað, það er að segja að ríkisstjórn og stjórnmálamenn virða að vettugi stjórnarskrána alveg burtséð frá því hvaða skoðun þeir hafa á Evrópu, ef við ætlum að eiga þarna samstarf innan ramma stjórnarskrárinnar þá verðum við að breyta stjórnarskránni“segir Pétur.

Hlusta má á ítarlegri umræður um þetta mál og fleiri fréttir vikunnar í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila