Ráðherra kynnti áherslur við endurskoðun landsskipulagsstefnu á Skipulagsdeginum

Skipulagsdagurinn, árleg ráðstefna Skipulagsstofnunar og Sambands íslenskra sveitarfélaga, var haldin í lok síðustu viku. Þar var Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, með opnunarávarp í fyrsta sinn eftir að málaflokkar skipulags- og húsnæðismála voru færðir undir nýtt innviðaráðuneyti. Á Skipulagsdeginum, sem haldinn var á Grand Hótel fyrir fullum sal, var sjónum beint að helstu viðfangsefnum og áskorunum í skipulagsmálum og landnotkun: stafrænni vegferð, fæðuöryggi, skipulagi bæjarrýmis og orkuskiptum.

Í ræðu ráðherra kom fram að sú yfirsýn náðst hafi með því að hafa byggðamál húsnæðismál, skipulagsmál, samgöngur og málefni sveitarstjórna, hafi falið í sér mikilvægar breytingar. Þær geri ráðuneytinu kleift að samhæfa málaflokka, einfalda ferla og gera betri grein fyrir þörfum íbúa um land allt með hagsmuni samfélagsins að leiðarljósi.

„Með því að færa skipulagsmálin og húsnæðismálin á milli ráðuneyta og samþætta þau við aðra málaflokka í nýju innviðaráðuneyti næst fram betri yfirsýn, áætlunargerð verður markvissari og hagkvæmni eykst, sem til framtíðar mun aftur leiða til aukins stöðugleika. Á þeirri vegferð leika skilvirkir skipulagsferlar stórt hlutverk og að upplýsingar um húsnæðismarkað séu aðgengilegar á hverjum tíma. Þannig hafa sveitarfélög t.a.m. betri upplýsingar um þörf fyrir byggingarhæfar lóðir til samræmis við húsnæðisáætlanir sveitarfélaga,“ segir í ræðu Sigurðar Inga.

Í ræðu ráðherra var sagt frá því að hann hafi látið hefja vinnu við á gildandi landskipulagsstefnu 2015-2026. Í landsskipulagsstefnu er sett fram stefnu um skipulag á miðhálendi Íslands, í dreifbýli, um búsetumynstur og dreifingu byggðar og loks um skipulag á haf- og strandsvæðum. Leiðarljós hennar sem fyrr verða að skipulag stuðli að sjálfbærri þróun, auknum lífsgæðum íbúa og samkeppnishæfni landsins og einstakra landshluta. Ráðherra sagði að fyrstu skrefin við undirbúning endurskoðunarinnar hafi verið stigin og samráð verði haft á öllum stigum málsins eins og ávallt.

Í ræðunni voru kynntar nokkrar helstu áherslur ráðherra varðandi endurskoðunina. Hann sagði að sérstök áhersla yrði á að skipulag verði í þágu loftslagmála, að það styðji við jafnvægi í uppbyggingu íbúðarhúsnæði og að lögð verði áhersla á úrræði til að stuðla að framgangi þjóðhagslega mikilvægrar innviðauppbyggingar. Þá verði áhersla á fjölbreytta ferðamáta, orkuskipti í samgöngum og uppbyggingu vegasamgangna á miðhálendinu. Þá verði hugað að skiptingu og útfærslu landbúnaðarlands og áskorunum sem tengjast vindorku og mögulegri nýtingu hennar. Loks verði mörkuð stefna um skipulag haf- og strandsvæða.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila