Raðhús sprengt í Stokkhólmi

Þegar sænskir fjölmiðlar eru opnaðir birtist dökkur heimur ofbeldis; skot- og sprengjuárásir eru hversdagsmatur, morð, nauðganir, rán, niðurlægingarrán gegn sænskum ungmennum, þar sem verður m.a. að sleikja skó glæpamannsins sem er langt í frá það versta. Núna eru fjölmiðlar uppfullir af frásögnum af handtökum, dómsmálum, innri málum stríðandi glæpahópa. Einungis örbrot af þessu kemst inn á lokaðan fjölmiðlaheim á Íslandi með starandi sjálfblindum blaðamönnum sem eru límdir við sína eigin mynd. Svíþjóð vantar engan glæpasöguhöfund, allir stóru fjölmiðlarnir allt frá ríkisreknu sjónvarpi, útvarpi til stórra dagblaða eins og DN, SvD, Aftonbladet og Expressen birta daglegar fréttir af ógeðslegri valdbeitingu ósvífinna eiturlyfjaklíka. Því miður hefur angi þessa ófagnaðar náð til eyjunnar í norðri „sem verður að vera eins og allar alvöru þjóðir“ með vopnaða eiturlyfjakónga á skemmtistöðum.

Raðhús sprengt í tætlur í Stokkhólmi

Hið blóðuga gengjastríð sem staðið hefur frá áramótum í Stokkhólmi breiðast út í íbúðahverfi borgarinnar. Margir áberandi glæpamenn eru í felum bæði innanlands sem og erlendis og núna einbeita gengin sér að því að skaða fjölskyldumeðlimi hvers annars. Þann 3. mars var karlmaður á fimmtugsaldri myrtur í Tullinge. Fórnarlambið var faðir 25 ára karlmanns með tengsl við Vårby glæpaklíkuna. Skömmu síðar var ráðist á íbúð í Alby með eldfimum vökva. Í tengslum við brunann létust tvær konur, ættingjar glæpamanns á heimilisfanginu.

Aðfaranótt fimmtudags vöknuðu íbúar raðhúsa í Hässelby við kröftuga sprengingu. Sprengingin var svo öflug að framhlið hússins sprakk í tætlur og nærliggjandi hús skemmdust. Í fjölmiðlum kemur fram að nokkrir hafi verið í raðhúsinu í tengslum við sprenginguna. Flytja þurfti mann á sjúkrahús með sjúkraþyrlu. Sjónvarpið talaði við mann sem bjargaði þremur börnum í skjól. Lögreglan handtók fjóra menn sem grunaðir eru um aðild að sprengjuárásinni.

Stríðsvöllur

Myndir af vettvangi ætti að opna augu fólks en margir sem hafa flúið stríð og komið til Svíþjóðar eru skelfingu lostnir að finna ekki friðinn sem lofað hefur verið með glansmyndum af Svíþjóð. Veruleiki leikskólabarna að æfa flótta frá kúlnahríð og leita skjóls í „paníkherberginu“ segir sína sögu. Einnig að vopnaðir glæpamenn stjórna tómstundaheimilum sveitarfélaga með beinan aðgang að ungmennum til að véla inn í undirheima eiturlyfja, morða og gengjastríða. Hér að neðan má sjá skemmdirnar eftir sprengjuárásina sem beindist gegn 21 árs rappara Remon Efrem Ghide frá Eritreu sem kallaður er „5iftyy“ og gerði m.a. lög með hinum myrta rapplistamanni Einari og er leikinn í sænska ríkisútvarpinu. Remon er dæmdur glæpamaður fyrir eiturlyfjaglæpi og hann tengist glæpahóp í Upplands Bro norðvestur af Stokkhólmi. Skömmu fyrir sprengjuárásina setti rapparinn út nýtt lag á YouTube, hyllingu til „kúrdíska refsins“ eins stærsta eiturlyfjasala Svíþjóðar, sem er í felum í Tyrklandi og leiðir gengjastríð á sænskri grund þaðan.

Deila