Næstkomandi mánudag 20. nóvember verður haldin í Hörpu ráðstefna um stöðu og réttindi afreksíþróttafólks.
Í tilkynningu segir að afreksíþróttafólk á Íslandi hafi í gegnum tíðina náð góðum árangri og búið til ógleymanleg augnablik í hjörtum landsmanna. Það skapi jákvæða fyrirmynd og hvetji til árangurs.
Þá segir að öll óvissa er varðar framfærslu og áunnin vinnumarkaðsréttindi á borð við rétt til heilbrigðisþjónustu, trygginga, fæðingarorlofs og atvinnuleysisbóta geti komið í veg fyrir árangur og ástundun afreksíþróttafólks. Jafnframt getur staðsetning á landinu haft neikvæð áhrif á íþróttaiðkun og aukið kostnað íþróttafólks og aðstandenda. Jafna þarf tækifærin og stuðla að því að afreksíþróttafólk hafi greiðan aðgang að faglærðum sérfræðingum s.s. þjálfurum, sjúkraliðum, læknum, næringarfræðingum, sálfræðingum og ráðgjöfum. Þá þarf afreksíþróttafólk að geta stundað nám samhliða íþróttaiðkun með þar til bærum sveigjanleika.
Dagskráin hefst kl.09:00 næstkomandi mánudag sem fyrr segir með ávarpi Guðna Th. Jóhannessonar forseta Íslands.
Ráðstefnan er öllum opin og er skráningarfrestur til og með 16. nóvember.