Rannsókninni á árásinni í Bankastræti Club miðar vel – Fimmtán í haldi lögreglu

Rannsókn Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á alvarlegri hnífaárás á skemmtistaðnum Bankastræti Club í miðborg Reykjavíkur sem framin var undir miðnætti síðastliðið fimmtudagskvöld og þrír voru stungnir miðar vel. Þetta segir í tilkynningu frá lögreglu.

Í tilkynningunni segir að rannsóknin hafi verið í algjörum forgangi frá því að málið kom upp. Að rannsókn málsins hafa unnið tugir lögreglumanna en lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur jafnframt notið góðrar aðstoðar annarra lögregluliða. Sem fyrr segir urðu þrír einstaklingar fyrir hnífsstungum þegar um 30 grímulæddir einstaklingar stormuðu inn á staðinn og réðust á mennina þrjá.

„Árásarmennirnir voru um þrjátíu talsins, þótt þeir hafi haft sig mismikið í frammi. Ekki síst í ljósi þessa fjölda er um mjög umfangsmikla rannsókn að ræða, en þrjátíu hafa verið handteknir í þágu hennar. Sextán hafa enn fremur verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna málsins, ýmist í eina viku eða tvær, en einum hefur verið sleppt. Núna eru því fimmtán í haldi lögreglu, en sá yngsti þeirra er sautján ára en sá elsti er á fertugsaldri. Fáheyrt er að svo margir sitji í gæsluvarðhaldi í einu og sama málinu.“ segir í tilkynningunni.

Þá segir að samhliða séu til rannsóknar tilvik um hótanir og skemmdarverk á íbúðarhúsnæði undanfarna daga, sem talin eru tengjast árásinni í miðborginni, en þau hafa að sögn lögreglu skapað mikla hættu. Eftir að málið kom upp hefur lögreglan aukið viðbúnað sinn og svo verður áfram og munu þess t.d. sjást merki um komandi helgi vegna þeirra hótana sem settar hafa verið fram.

Þá skoðar lögreglan hvernig myndefni af árásinni í miðborginni rataði í fjölmiðla og hvort starfsmaður lögreglu hafi átt þar hlut að máli. Slíkt er litið alvarlegum augum og er það til rannsóknar hjá embætti héraðssaksóknara, sem var þegar gert viðvart.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila