
Reykjavík er meðal fjörutíu evrópskra borga sem verða svokallaðar tvíburaborgir (Twin City) í sóknaráætlun NetZeroCities í átt að kolefnishlutleysi og snjallvæðingu (Carbon-neutral and smart cities). Verkefninu var formlega hleypt af stokkunum í þessari viku.
Reykjavík og Lahti í Finnlandi verða tvíburaborgir og munu eiga með sér samstarf næstu 20 mánuði um þekkingarmiðlun og þróun lausna í átt að sjálfbærum samgöngum og aðferðum til að styðja sem best við breytta samgöngumáta íbúa.
Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að tvíburaborgir hafi verið paraðar saman út frá sameiginlegum áskorunum og markmiðum varðandi minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda og annarra aðgerða til að takast á við loftslagsvandann, í þessu tilviki með sérstakri áherslu á þróun virkra samgangna. Borgirnar fá sérstakan stuðning frá NetZeroCities áætluninni sem skipuleggur samskipta- og samráðsfundi borganna á milli.
Í tilkynningunni segir að fyrir Reykjavíkurborg sé þetta tvíburasamstarf einkum mikilvægt til að fylgja eftir samgöngustefnu borgarinnar, einkum og sérílagi að sinna betur og aðlaga stefnu borgarinnar að raunverulegum samgönguþörfum íbúa höfuðborgarsvæðisins og breyttra samgönguhátta.
- Græna Planið: Loftslagssamningur – Evrópusamstarf um kolefnishlutlausar og snjallar borgir 2030
- Aðalvefur NetZeroCities
- Um Lahti sem NZC tilraunaborg
- Fréttatilkynning NetZeroCities (NZC) um Tvíburaborgir
- Rannsóknir og borgarþróun – yfirlitssíða